151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta var nú aldeilis ádrepan, alls konar staðhæfingar. Ég gæti svo sem farið í þær hverja fyrir sig en ég ætla að reyna að svara þingmanninum málefnalega og spyrja hann einnar spurningar eða tveggja: Er þingmaðurinn sammála því að það sé skynsamlegt að fara í að stórefla sveitarstjórnarstigið? Ef þingmaðurinn er sammála því þá þarf að fara einhverjar leiðir til þess. Sú leið sem verið er að fara í yfirlýsingunni sem ég ræddi hér við hv. þm. Loga Einarsson áðan er að við setjum 935 milljónir samkvæmt beiðni sveitarfélaganna inn í það verkefni að styrkja og styðja við sameiningar sveitarfélaganna. Það er augljóst. Einnig er gert samkomulag við sveitarfélögin í fjármálaáætlun til næstu fimm ára hvernig þau geti með ríkinu unnið að því að verða sjálfbær í þessu umhverfi sem er sannarlega fullt af óvissu vegna Covid.

Við erum með skýra sýn á það að skynsamlegt sé að búa til sterkari einingar sveitarfélaga, m.a. vegna þess að tveir óháðir sérfræðingar á sviði sveitarstjórnarmála hafa metið það svo, og lagðar voru til sameiningar í þingsályktun sem var samþykkt hér á þinginu og hv. þingmaður kallar lögþvingaðar. Ég spyr hann þá enn aftur, ef hann er sammála því að það sé skynsamlegt að efla sveitarstjórnarstigið og stækka sveitarfélögin: Hvernig á að fara að því ef maður ætlar að hafa einhverja skoðun sem þingmaður og er sá sem setur lögin um sveitarfélögin? Hvernig getur það verið lögþvingað? Er þá ekki allt sem við gerum hér lögþvinganir? Við setjum lög um alla mögulega og ómögulega hluti. Síðan eru menn sjálfstæðir að lögum innan þess. Það sama gildir um sveitarfélögin.

Það sem við erum að gera er að vinna í einni samfellu að því að koma fram með hugmyndir um stuðning við sameiningarnar, hvernig þær eiga að geta átt sér stað. Þær skila, hv. þingmaður, 3,5–5 milljarða ávinningi (Forseti hringir.) til íbúa þessara sveitarfélaga á ári. Þá þurfa menn ekki að koma til ríkisins og biðja um 5 milljarða stuðning ár hvert, (Forseti hringir.) heldur geta þeir búið hann til sjálfir.