Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að gefa mér tækifæri á að svara þessu og mér fannst líka mjög góður bragur á því hvernig hv. þingmaður setti fram sína spurningu, svo það sé sagt. Þá kemur auðvitað Framsóknarmaðurinn upp í mér og segir að báðir hafi rétt fyrir sér. [Hlátur í þingsal.] Það er þannig. Það er mynd á bls. 288 sem er mjög gagnleg fyrir okkur sem erum að þræða fjárlagafrumvarpið, hvað sem okkur finnst um ógagnsæið í því. Það er líka gagnlegt að hafa fylgiritið með, þá sér maður tölur brotnar niður á stofnanir.

Varðandi þessa upphæð, 4,1 milljarð, og ég segi að báðir hafi rétt fyrir sér, þá stendur einfaldlega í stöplaritinu þar sem útgjaldabrúin er: Aðhald -4,1 milljarður. Þess vegna hefur hv. þm. Björn Leví Gunnarsson rétt fyrir sér. En hvað er þetta aðhald? Þá kemur að næsta ás. Um hvað erum við að tala? Eins og ég fór yfir í minni ræðu þá skiptir máli að horfa á hagræna skiptingu. Hefur þetta afleiðingar fyrir spítalann? Þarf hann að skera niður í sínum rekstri? Svarið við því er nei. Við erum að auka rekstrarframlög til spítalans og við erum með nægilegt fjármagn í heimildum, uppsöfnuðum og inn á þetta ár, 13,4 milljarða og loksins erum við farin að sjá bygginguna alla vega rísa upp úr jörðu. Þetta er hliðrun á fjárheimildum, 3 milljarðar á Landspítalann, sem við hefðum ekki náð að nota, og 1,1 á Sjúkrahúsið á Akureyri, sem við hefðum heldur ekki getað notað. Það á eftir að fara í hönnun og það ferli allt saman er í samstarfsnefnd um opinber fjármál. Við eigum einhverjar 700 milljónir til að klára þau verkefni sem liggja fyrir á næsta ári. Í staðinn fyrir að þetta hefði bitnað á rekstri þá þurfti bara að fara yfir allar framkvæmdaáætlanir við hjúkrunarheimilin, spítalana, (Forseti hringir.) allt sem var inni var til í fjárheimildum, og spyrja: Hvað getum við notað? Hvar er þetta statt? Þetta var gert til þess að vanda okkur (Forseti hringir.) og þurfa ekki bara að setja þetta einhvers staðar og láta það jafnvel bitna á rekstri. Þetta er eins nálægt því og ég kemst í að útskýra þetta. Þetta er hliðrun.