132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:59]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hún var að mörgu leyti skrýtin ræðan hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni um fjárlagafrumvarpið. Á þeim tiltölulega stutta tíma sem hann hafði fannst mér honum takast að tala bæði út og suður og upp og niður um málefnið því hann byrjaði á því að segja að fjárlagafrumvarpið einkenndist af aðhaldi. Hann hældi ríkisstjórninni fyrir að leggja fram þetta aðhaldssama fjárlagafrumvarp, ríkisstjórnin væri með því að bregðast við þenslunni eins og hún væri, og tók sérstaklega fram að verið væri að fresta framkvæmdum upp á 2 milljarða í vegamálum og það sýndi hve ábyrg og föst stjórn á peningamálunum væri hjá ríkisstjórninni.

Örstuttu síðar í ræðu sinni sagði hann að aðilar á markaði segðu að ekkert þýddi annað en skera niður 30–40 milljarða ef menn ætluðu að hafa einhver áhrif á hagstjórnina og peningamálin. Þá sagði hv. þingmaður: Það munar ekkert um 5–10 milljarða í því efni. Búinn að segja örstuttu áður að þeir 2 milljarðar sem verið væri að skera niður í vegamálum skiptu öllu máli í hinum aðhaldssömu fjárlögum sem væri verið að leggja fram. Því er ekki úr vegi að spyrja hv. þingmann hvort hann meini í raun að fjárlögin séu aðhaldssöm og það skipti miklu máli að fresta vegaframkvæmdum upp á 2 milljarða eða hitt sem hann sagði stuttu síðar að það skipti engu máli þó að skorið væri niður um 5–10 milljarða því það þyrfti í raun að spara um 30–40 milljarða til að það hefði einhver áhrif. Ég verð þó að hæla hv. þingmanni fyrir að hann viðurkenndi hér að það ríkti þensla og ég held að þetta sé fyrsti stjórnarþingmaðurinn í langan tíma sem talar um peningamál án þess að nefna orðið stöðugleiki. Ég heyrði ekki orðið stöðugleiki í ræðu hv. þingmanns og er það gott því eins og allir vita er stöðugleikinn ekki fyrir hendi.