132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það verður nú að segja, virðulegur forseti, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur þó alltaf það að hann er gamansamur maður. Hér kemur stjórnarliðinn Einar Oddur Kristjánsson og þenur sig og skammar stjórnarandstöðuna fyrir ábyrgðarleysi í þessum efnum og að hún skuli ekki sjá það að gengið sé allt of hátt og vilji ganga í lið með honum til að lækka það. Bíddu, hvaðan kemur hv. þingmaður svona fyrir utan það að vera af Vestfjörðum? Hann er úr stjórnarliðinu. (Gripið fram í.) Er þetta ekki stuðningsmaður ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar? Er ekki Einar Oddur Kristjánsson búinn að gera Halldór Ásgrímsson að andlegum leiðtoga sínum? Hvað sagði Halldór Ásgrímsson okkur um þessi mál í fyrrakvöld? Þetta er allt í fína lagi, það er bara svartagallsraus í Vinstri grænum og öðrum slíkum bölsýnismönnum að eitthvað sé að hér í efnahagsmálum, og utanríkisráðherra gekk undir þennan málflutning. Svo kemur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og segir: Gengið er allt of hátt og þetta er að fara til fjandans — og það er rétt hjá honum. En það þýðir ekkert að kenna Seðlabankaræflinum einum um það. Það er algjörlega út í hött, hv. þingmaður, eða hvað á Seðlabankinn að gera? Hann starfar samkvæmt lögum sem fyrirskipa honum að hafa eitt aðalmarkmið sem er verðstöðugleiki og hann vinnur samkvæmt yfirlýsingu frá ríkisstjórn frá því í maí 2001 um að hann skuli reyna að halda verðmiðunum við 2,5%. Meðan ríkisstjórnin breytir ekki þeim viðmiðunum sem Seðlabankinn sækir um heimild til ríkisstjórnarinnar til að hafa þá ættu stuðningsmenn stjórnarliðsins að hafa sig hæga. Einar Oddur Kristjánsson þarf fyrst og fremst að halda uppi þessum málflutningi á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins og ræða það við leiðtoga sinn, Halldór Ásgrímsson, hvort þetta sé kannski ekki alveg í jafngóðu lagi og raun ber vitni. Það stendur ekki á okkur í þeim efnum. Við erum eini þingflokkurinn, Vinstri grænir, sem höfum síðan í fyrravetur talað fyrir og rökstutt nauðsyn aðgerða í þessum efnum. Við erum með í sex tölusettum liðum það sem við teljum vera hægt að gera til að leggja viðleitni Seðlabankans lið þannig að hann þurfi ekki að halda áfram þessari kannski vonlitlu baráttu með því að hækka stýrivextina. Það er görótt meðal, það er alveg ljóst, en hvað á hann að gera?