142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að óska samþingmönnum mínum til hamingju með kjörið og ég hlakka til samstarfsins á þessu kjörtímabili.

Ég hef heyrt það af hálfu stjórnarandstæðinga að þeir hafa miklar áhyggjur af því að ekki hafi verið skipaður sérstakur umhverfisráðherra. Mig langar aðeins að fjalla um það mál. Í tilefni orða hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur áðan vil ég lýsa því yfir að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því vegna þess að ég tel að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem skipa hana hafi mikinn áhuga á umhverfismálum og leggi áherslu á umhverfismál eins og sést á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Með þeim orðum tel ég að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi ekki verið að lýsa því yfir að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki lagt áherslu á heilbrigðismál, menntamál eða sveitarstjórnarmálin þrátt fyrir að þau hafi verið að færa til verkefni innan ráðuneyta og í sumum tilvikum að sameina ráðuneyti. Ég tel því að þessi umræða sé á villigötum. Þegar við tölum um umhverfismál eigum við að einbeita okkur meira að málefnunum heldur en einstaka mönnum. Ég tel að það sé einfaldlega heppilegra og málaflokknum til framdráttar.

Mig langar að benda á að umhverfismálin og umræðan um þau á undanförnum árum hefur að mjög miklu leyti snúist eingöngu um virkjanir, um vernd og nýtingu og vissulega er það mikilvægt mál. Hins vegar er stærsta verkefni okkar á líðandi stundu í umhverfismálum það að taka til við að græða betur upp landið okkar. Það þekkja allir sem ferðast um hálendið og þeir sem vinna á hálendinu og búa til dæmis á Suðurlandi hvað blæs mikið ofan af hálendinu.

Þetta er risastórt mál og mig langar að lýsa því yfir að ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stórauka eigi landgræðslu, skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda. Þetta er stóra verkefnið. Við skulum einbeita okkur að málefnunum en ekki einstaka mönnum varðandi umhverfismál.