144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tækifærið til að fara aðeins betur ofan í þetta mál og lýsa skoðunum mínum á því. Þessi stefnumótandi ákvörðun, um áform um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri, var tekin til þess að geta komið til móts við starfsmenn Fiskistofu. Sett var á laggirnar verkefnisstjórn og voru starfsmennirnir sjálfir þátttakendur í þeirri skipulagningu. Sú verkefnisstjórn hefur starfað í sumar, skilað til mín minnisblaði þar sem meðal annars er farið yfir nokkur af þeim atriðum og fjölmörg önnur sem hv. þingmaður nefndi.

Eins og ég sagði í inngangi mínum vænti ég þess að upp úr miðjum október liggi nokkuð fyrir með hvaða hætti þessi flutningur getur farið fram, þ.e. hvaða starfsmenn eru tilbúnir að flytja, hvaða starfsmenn munu starfa hér áfram og hvaða störf verða hugsanlega flutt á Akureyri sem þarf þá að þjálfa nýtt starfsfólk upp í.

Við sögðum í sumar, eftir þá undirbúningsvinnu sem við höfum átt í ráðuneytinu, að kostnaðurinn gæti legið á bilinu 100–200 milljónir og það er skoðun mín að hann standi þar enn. Ólíkar sviðsmyndir hafa sýnt fram á að hann sé á því bilinu. Hvenær hann fellur til fer eftir því hversu hratt og hversu margir flytja og ýmsu öðru sem ekki er hægt að svara akkúrat núna. Mikilvægast er að tryggja að mannauðurinn sé hjá Fiskistofu, að við horfum til sjónarmiða starfsfólksins og höfum það með í ráðum. Hin aðferðin hefði verið sú að undirbúa allan flutninginn og ganga frá honum án aðkomu starfsmannanna. Það fannst mér ekki rétt aðferð. Mér finnst skynsamlegra að hafa starfsmennina með.

Varðandi lögformlegheitin þá eru þau umdeilanleg en við teljum óskynsamlegt að velkjast í vafa með það. (Forseti hringir.) Þess vegna mun koma hér frumvarp frá forsætisráðherra þar sem þetta ákvæði er meðal annars skýrt og væntanlega fleiri breytingar á stjórnarráðslögunum.