144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna og svörin hingað til. Það eru nokkrar spurningar sem mig langar að bera upp við hann undir þessum lið. Í fyrsta lagi varðandi stöðu Háskóla Íslands en þar hefur stúdentaráð spurt hvað liggi bak við það í texta frumvarpsins að nemendum verði fækkað um 499. Í fjárlagafrumvarpinu stendur:

„Í frumvarpinu er framlag til kennslu miðað við 13.536 ársnemendur, samanborið við 14.035 í fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta er fækkun um 499 ársnemendur eða sem nemur 3,7% og er í samræmi við áform ráðuneytisins um að leggja áherslu á að viðhalda gæðum náms og þjónustu skólanna við nemendur.“

Stúdentaráð spyr: Hvernig getur það staðist að fækkun nemenda sé í einhverju sérstöku samræmi við áform ráðuneytisins um gæði háskólanáms? Ég held að það sé rétt að ég taki að mér fyrir hönd stúdentaráðs að inna ráðherrann svara við þessu.

Háskólaráð Háskóla Íslands lýsti afar þungum áhyggjum á fundi sínum í gær af áframhaldandi óviðunandi rekstrarumhverfi háskólans og segir að í raun vanti 440 millj. kr. í kennslufjárveitingu til skólans fyrir árið 2015 sem samsvarar því að ekki sé greitt með 500 ársnemum í Háskóla Íslands á næsta ári.

Mig langar, rétt eins og fleiri hafa gert hér líka, að spyrja um Hvanneyri. Hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir spurði út frá texta frumvarpsins og því sem þar er. Eins og fram hefur komið í umræðunni, þó að hún hafi kannski ekki farið hátt akkúrat hér, er skólanum gert að greiða 10 milljónir til baka af halla á yfirstandandi ári og síðan 35 milljónir á næsta ári og næstu árum. Þetta er alveg gríðarlega snúið fyrir stofnun eins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Ég sé þessa ekki stað í fjárlagafrumvarpinu og bið hæstv. ráðherra að hjálpa mér að finna þann texta þar sem fram kemur að 35 milljónir séu lagðar á Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri til viðbótar við annað.

Mig langar að spyrja um Listaháskóla Íslands þar sem mér sýnist að endurskoðun á reiknilíkani gagnist Listaháskólanum ekki neitt. Þannig má spyrja hvort vinna við endurskoðun á reiknilíkani hafi ekki verið kláruð og hvort Listaháskólinn gjaldi fyrir það, auk þess sem fellt er niður árlegt tímabundið framlag til húsnæðismála Listaháskólans upp á 10 milljónir. Það er rétt að spyrja af hverju þetta framlag sé fellt niður en húsnæðisvandi skólans hefur ekki verið leystur og verður ekki leystur á næsta ári og er væntanlega jafn mikill og hann hefur verið.