144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér við alveg gríðarlega mikilvægu máli sem er staða háskólanna, þá kannski sérstaklega Háskóla Íslands. Ég hef auðvitað samúð með því sjónarmiði og held að það hafi margt sér til ágætis að skólinn sé þannig opinn að allir á öllum tímum æviskeiðs síns geti stundað þar nám. Við höfum sagt að við vildum hafa þetta svona en við höfum hins vegar aldrei, og þá skiptir ekki máli hvaða flokkar hafa verið við völd, verið tilbúin að borga fyrir þessa stefnu. Við höfum sagst vilja hafa hana en við höfum ekki borgað fyrir hana. Það getur ekki gengið endalaust. Annaðhvort höldum við þessu áfram svona, eins og við höfum verið að gera, og borgum fyrir það til að tryggja gæðin eða við nálgumst þetta með einhverjum öðrum hætti.

Ég er ekki að boða hér að taka upp skólagjöld heldur er ég bara að nefna það að við verðum að horfast í augu við þessa þróun. Það er auðvitað það sem veldur okkur vandræðum, ekki það að okkur skorti fólk sem fari í háskólann. Við erum reyndar komin langt fram úr flestum öðrum hvað það varðar, en það er miklu hærri meðalaldur á nýnemunum okkar en annars staðar. Ef ég man rétt er meðalaldurinn á þeim sem eru að ljúka fyrstu háskólagráðu frá Háskóla Íslands með BA- eða BS-prófi rétt rúm 30 ár. Þetta er þriggja ára nám. Það segir sig sjálft að við hljótum að staðnæmast við þessar tölur, sama hvar í flokki við stöndum, og ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann um það hvaða lausnir við getum fundið á þessu máli.

Hvað varðar skólann á Hvanneyri er því ekki að leyna að það voru mér heilmikil vonbrigði að komast að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið pólitískt lag til að klára það verkefni sem ég lagði upp með. Það lá samt alveg fyrir af minni hálfu hvað tæki þá við þannig að í sjálfu sér þarf ekki að vera nein óvissa hvað það varðar. Þá lá alveg fyrir að það yrði að grípa til þeirra aðgerða sem eru óumflýjanlegar til að verða við þeim athugasemdum sem hafa komið fram hjá Ríkisendurskoðun, frá fjármálaráðuneytinu, fjárlaganefnd og öllum þeim sem um þessi mál hafa talað svo oft að um þennan skóla verða að gilda sömu reglur og lög og um aðrar stofnanir. Hann verður að halda sig innan fjárlaga og beygja sig líka undir það að þurfa að greiða eitthvað til baka af þeim fjármunum (Forseti hringir.) sem hann hefur farið fram yfir en augljóslega aldrei svo að hann klári það allt saman. Þetta er svo langt fyrir utan það sem heimilað hafði verið á Alþingi.