151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist það fjárhagslegt jafnrétti, eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra og hann taldi alveg eðlilegt, að í fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir 5 milljarða kr. skattleysi af arfi en á sama tíma, ef það væri lífeyrisþegi, öryrki eða eldri borgari sem fengi þennan arf yrði hann liggur við skertur um krónu á móti krónu? Skýring hæstv. ráðherra á því furðulega jafnrétti var sú að honum fyndist eðlilegt að þetta væri svona vegna þess að það héldi uppi í kerfinu eins og það væri í dag. Honum finnst þar af leiðandi eðlilegt að þeir sem verst hafa það haldi uppi kerfinu en þeir sem best hafa það fái að halda slíkum arði skerðingarlaust. Finnst henni eðlilegt að það gildi líka ef ég fæ stóra peningagjöf, að þá væri það í lagi og hún væri ekkert skert en ef öryrki fengi peningagjöf, segjum mánaðarlega, þá væri kannski helmingurinn af þeirri framfærslu skertur?

Er ekki kominn tími til að við finnum einhvern grundvöll þannig að þeir sem eru í slíkri aðstöðu, hvort sem það eru öryrkjar, eldri borgarar eða aðrir, eigi einhvern varasjóð, geti bjargað sér og börnum sínum vegna aukins kostnaðar eða einhvers annars, að ekki sé allt skert svona gífurlega og það strax, alveg sama hvað það er?