151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og langar aðeins að eiga við hann orðastað um í grundvallaratriðum tvö mál. Annað snýr að sveitarfélögunum og við byrjum á því. Þar stendur nú yfir áætlun og markmið um að sveitarfélög stækki og þeim fækki og raunar er á þingmálaskrá ráðherra mál þar að lútandi. Það sem þetta leiðir hins vegar til og mér finnst kannski ekki hafa verið nægilega mikið í umræðunni er hvaða áhrif þetta hefur á lýðræðið í sveitarfélögunum, hvaða áhrif þetta hefur á aðkomu íbúanna að lýðræði og svona bein áhrif á stjórn sveitarfélaga sinna. Þetta segi ég verandi algerlega sammála þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra hefur einmitt birt í þingsályktunartillögu sem við samþykktum í fyrra. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ráðherranum þyki skynsamlegt að jafnvel inni í fjármálaáætluninni eða þá með einhverjum hætti í reglum ráðuneytisins væri einhvers konar viðmið um það, kannski ítarlegri viðmið heldur en eru núna í lögum beinlínis um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa, hvort það ætti að vera áskilnaður um til að mynda heimastjórnir eins og var ákveðið að gera fyrir austan og við eigum eftir að sjá hvernig reynist. Þetta getur skipt máli.

Síðan er hitt sem kemur fram í áætluninni, þetta með kynjajafnrétti og kynjasjónarmið í sveitarstjórnum og hvort það sé eitthvað sem er verið að vinna með sérstaklega í ráðuneytinu. Það er alvarlegt mál að í rauninni séu konur kannski vel innan við, í mörgum sveitarfélögum, þriðjungur (Forseti hringir.) af sveitarstjórnarfulltrúum en yfirleitt alltaf helmingur íbúa.