141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stóriðjusamningar og loftslagsmál.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Með allri virðingu er ríkisstjórnin greinilega ekki tilbúin. Hún er ekki tilbúin til að svara því hvort kísilverksmiðja á Húsavík rúmast innan þeirra áætlana sem hún starfar eftir, hún er ekki tilbúin til að svara því hvort það samræmist lögum og einhverjum alþjóðlegum viðmiðum. Og ríkisstjórnin er ekki tilbúin að svara því hvort hún ætlar að leggja fjármuni í að tryggja nauðsynlegar samgöngubætur og uppbyggingu hafnarmannvirkja sem tengjast þeirri framkvæmd. Landsvirkjun er tilbúin en ríkisstjórnin er ekki tilbúin með svörin. Það er hin dapurlega staðreynd málsins.

Við erum á síðasta ári þessa kjörtímabils. Raunverulegur stuðningur frá ríkisstjórninni við uppbyggingu iðnaðar í landinu er enginn. Þegar álverið á Bakka var slegið af klöppuðu þingmenn stjórnarliðsins hér í þingsal. Núna eru komin raunveruleg dæmi um fyrirtæki. Landsvirkjun segist ætla að klára samninga um mitt næsta ár, þá sé raunhæft að klára þá. Ríkisstjórnin verður að svara því: Ætlar hún að styðja við þau áform eða ekki? Það er ekki hægt að fresta svörunum fram yfir kosningar, því miður. Það er ekki hægt að koma á næsta kjörtímabili og segja: Það var ekki svona fyrirtæki.

Ef ríkisstjórnin bregst varðandi fjárhagslegan stuðning verða þessi verkefni (Forseti hringir.) ekki að veruleika í tíma.