141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða. Þingmenn sumir hverjir kalla eftir ítarlegri umræðu og auk þess kalla þeir eftir heildarúttekt á frumvarpinu. Við erum að fara með málið inn í nefnd og það verður ítarlega rætt. Það verða gerðar á þessu frumvarpi allar þær úttektir sem nokkur möguleiki er á.

Spurt er: Hvers vegna fengu lögfræðingarnir fjórir ekki víðara umboð? Svarið við því er einfalt, virðulegi forseti: Þau voru beðin um að gefa lögfræðilegt en ekki pólitískt álit á tillögum stjórnlagaráðs. Þau voru beðin um að samræma mannréttindaákvæði tillagna stjórnlagaráðs mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að. Þess vegna er bætt inn ákvæði um að virða eigi rétt foreldra til að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúarskoðanir eða lífsskoðanir þeirra. Einnig er bætt við ákvæði um að ekki megi lögsækja fólk tvisvar fyrir sömu sakir.

Virðulegi forseti. Þau gerðu það sem þau voru beðin um. Auðvitað er ekki hægt að biðja fólk um að vinna vinnu af þessu tagi án þess að það geti lýst skoðunum sínum. Það væri dónaskapur, virðulegi forseti. Og þau lýstu skoðunum sínum í skilabréfi með ábendingum og ábendingar þeirra og ábendingar allra annarra sem komu fram í fyrravetur verða ítarlega skoðaðar og ræddar í öllum nefndum þingsins eftir því sem við á.

Ég vona að ekki þurfi að segja það hér, þótt alltaf sé verið að segja það, að við eigum að vanda okkur við það sem við gerum. Mér finnst óþarfi að segja það. En áttum okkur líka á því hvert hlutverk okkar er. Okkar er að móta stefnu og ákveða, auðvitað eftir að hafa aflað okkur allra þeirra upplýsinga sem við höfum tök á, en verkefnið er að velja á milli leiða, ákveða hvaða leið á að fara. Það á við hvort heldur er um rammaáætlun um vernd náttúrunnar og nýtingu náttúruauðlinda eða innihald og ákvæði í stjórnarskrá.

Þegar við ákveðum eitthvað getum við ekki skýlt okkur á bak við fræðimenn. Við hlustum á ráð sem okkur eru gefin en svo ákveðum við og berum ábyrgðina. Við erum kosin til að leiða. Við erum kosin til að ákveða en ekki til að skýla okkur á bak við fræðimenn. Fræði og vísindi eru ekki öll jafnnákvæm. Í vísindum þarf fólk stundum að taka ákvarðanir sem það veit ekki nákvæmlega hvaða afleiðingar hafa. Læknavísindi eru nærtækasta dæmið. Læknar sem rannsaka sjúkling eins vel og þeim framast er unnt þurfa stundum að taka ákvarðanir sem þeir vita ekki nákvæmlega hvaða afleiðingar hafa.

Á íslensku er talað um raunvísindi og hugvísindi. Fyrir einhverjum árum eða ef til vill áratugum héldu kannski einhverjir því fram að hagfræði væri fremur raunvísindi en hugvísindi. Tölvur og örgjörvar gerðu hagfræðingum kleift að reikna alls konar hluti fram og til baka, lóðrétt og lárétt með ótal breytum. Þess vegna héldu sumir að þeir gætu spáð nokkuð nákvæmlega fyrir um efnahagsþróun. Sú var hins vegar ekki raunin. Af hverju ekki? Af því að — þetta er kannski prívatkenning mín en mér fannst hún góð — aðal-, megin-, eða hvað við köllum breytuna í spálíkaninu er fólk. Fólk er óútreiknanlegt, virðulegi forseti, svoleiðis er það bara. Auðvitað getur þó hagfræðin spáð fyrir um hvað er líklegt með misjafnlega mikilli óvissu.

Fræðin sem fjalla um það sem við erum með til umfjöllunar eru hugvísindi. Eftir því sem ég best veit hafa fræðimenn ekki haldið því fram að þeir geti spáð fyrir um framtíðina. Þeir rannsaka það sem þekkt er. Auðvitað eigum við að hlusta á það sem fræðimenn segja. Hvað eigum við þá að gera þegar þeir segja að persónukjör, þar sem fólk getur valið einstaklinga af mismunandi listum eins og tíðkast til dæmis á Írlandi, leiði til meiri flokksaga vegna þess að rannsóknir sýna að flokksagi er meiri á Írlandi en annars staðar? Segja bara já og amen? Það er svoleiðis, tölum ekki meira um það? Nei, virðulegi forseti, það er ekki nóg fyrir mig. Það þarf meira til að sannfæra mig um réttmæti þess.

Við hljótum að gera þetta upp við okkur sjálf, vega og meta og taka ákvörðun. Við getum ekki bara sagt: Fræðimenn segja þetta og kannanir segja hitt og þess vegna geri ég svona. Við erum í pólitík og hún snýst um að ráða ráðum og vega og meta og ákveða svo og bera ábyrgðina.

Því er haldið fram að það sé óljóst að hafa í stjórnarskrá að allir eigi að fá að lifa með reisn og að ofbeldi sé bannað hvenær og hvar sem er — vegna þess að það geti leitt til málaferla. Ég bið hv. þingmenn að velta fyrir sér hvaða framfarir yrðu nokkurn tímann nokkurs staðar ef við horfðum alltaf í baksýnisspegilinn og þyrðum ekki að takast á við hið ókomna.

Við höfum leitað til lögfræðinga, virðulegi forseti. Tillögurnar sem lagðar eru fram standast kröfur þeirra að formi til þótt þeir telji að sumt megi laga að efni til. Það eru ábendingar þeirra. Við höfum líka minnisblöð stjórnmálafræðinga og við munum áfram leita álits þeirra.

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, og ég segi þetta ekki í hálfkæringi, hvort við ættum ekki að leita til sagnfræðinga og spyrja þá hvaða áhrif breytingar hafi haft á þróun í þessu landi.