146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka tækifærið að fá að ræða stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ég fagna ætíð hverju tækifæri til að taka þátt í slíkum skoðanaskiptum. Stefna ríkisstjórnarinnar er mjög skýr í þessu máli, þ.e. að við munum, eins og hv. þingmaður kom inn á, byggja samstarf okkar við Evrópusambandið á EES-samningnum, enda — og þetta veit hv. þingmaður — er það hann sem tryggir okkur aðgang að innri markaði Evrópu, sem eru grundvallarhagsmunir þjóðarinnar.

Stjórnarsáttmálinn segir líka skýrt að afstaða stjórnarflokkanna kunni að vera ólík þegar kemur að mögulegri atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Sú ólíka afstaða á ekki að koma neinum á óvart sem fylgist með umræðum um utanríkismál hér á landi. Hin ólíka afstaða kristallast síðan í þeim skoðanamun sem er á milli flokkanna um hvort hagsmunum Íslands sé mögulega betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Og hún er ekkert leyndarmál og hefur aldrei verið. Þess vegna er svona skýrt talað um þetta í stjórnarsáttmálanum.

Þess vegna segir líka í stjórnarsáttmálanum, sem mér finnst einmitt svo ótrúlega heilbrigð afstaða, að flokkarnir kunni að hafa ólíka afstöðu til málsins og þeir virða það hver við annan. Hún endurspeglast hér. Það er enda mál- og tjáningarfrelsi hér á landi.

Það sem skiptir hins vegar mestu máli í þessu er að ég og hæstv. utanríkisráðherra erum algerlega sammála og samstiga í því að tryggja hagsmuni Íslands og gæta þeirra á alþjóðavettvangi. Það er eitthvað sem við erum algerlega sammála um og við erum í mjög góðum samskiptum.


Efnisorð er vísa í ræðuna