146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú gott á mig að fá þessa spurningu. [Hlátur í þingsal.] Hvað á þá að koma í staðinn? Það sem ég sagði áðan og segi aftur: Ég tel þetta fullreynt. Það er búið að vera óeining og rifrildi um rammaáætlun liggur við að ég segi frá degi eitt, það er reyndar ekki alveg rétt hjá mér, en í mjög langan tíma. Sýnu verst hefur hún verið undanfarin ár þegar ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi og sat í t.d. (Gripið fram í: Nei. ) fór að fikta í röðuninni, hleypti af stað hér mjög stórum bolta.(Gripið fram í.) Studdi, fyrirgefið, var það ekki? (Gripið fram í.) Jæja, mér finnst þú vera búin að vera hér í tugi ára, Steinunn, fyrirgefðu. En flokkur hennar sat í það minnsta í ríkisstjórn. Ég dreg þetta til baka.

Það sem mestu skiptir er að við erum búin að rífast um þetta og það er ekki nein sátt um þetta plagg, það er bara þannig. Ég er alveg heiðarlegur. Ég hef ekkert töfrabragð um það hvað eigi að koma í staðinn. Ég bara sé að þetta gengur ekki. Það getur vel verið að sú leið sem Norðmenn fara núna henti okkur eitthvað betur, ég hef bara ekki kynnt mér það nógu vel. Það getur vel verið að þeir séu betur staddir en við með meiri rannsóknir, meiri stefnumótun o.s.frv., þetta sé ekki hætt að nýtast. En við alþingismenn verðum líka að þora að viðurkenna þegar eitthvað gengur ekki og hefur mistekist.

Alla vega síðan 2009 þegar ég kom inn á þing, kannski er það mér að kenna, hefur engin sátt verið um þetta. Hér hefur allt farið í bál og brand í hvert skipti sem hefur verið talað um rammaáætlun. Á sínum tíma, ég held nú að það hafi verið ráðherra Framsóknarflokksins sem fór af stað með þetta, ef ég man rétt, Jón Sigurðsson líklega, þá man ég að ég hafði alltaf efasemdir um að þetta gæti gengið vegna þess að það var alltaf ljóst, við ákváðum hins vegar að gefa þessu séns, að það yrðu einhverjir árekstrar með þessum hætti. Við sjáum það líka að hlutverk verkefnisstjórnar, sem er ekkert öfundsverð, þetta fína fólk sem er í verkefnisstjórn, er ekki nógu vel skilgreint heldur í lögunum. Það getur vel verið að það sé hægt að taka til í þessum lögum og gera umhverfið miklu betra og skilvirkara, en í dag, eins og fram hefur komið í þeim gögnum sem ég vísaði í áðan, er þetta huglægt, mjög mikið af huglægum ákvörðunum sem þarf að taka þarna. Ég spyr: Er það boðlegt að það fari bara eftir því hvers konar gott fólk er sett í þessa nefnd, hvernig það hugsar, að menn raði svona hlutum niður?