151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf ekkert að segja gömlum lögfræðingi að formið skipti ekki máli. Formið skiptir máli. Um það getum við alveg verið sammála. En sem kjósandi er ég ekki að kjósa einhvern fulltrúa minn í stjórnmálum til að sjá um það. Kjósandinn er ekki að kjósa endurskoðanda ríkisreiknings, hann er að kjósa einhvern sem hefur stefnu í stjórnmálum, í stóru málunum. Látum nú vera að einhver formræða fylgi með en hún taki ekki 29 mínútur af 30 mínútum.

Varðandi Nýsköpunarmiðstöð voru þar 70 starfsmenn, ef ég man rétt. Það má reikna með að sirka 10 milljónir á ári á hvern þeirra hafi farið í laun. (Gripið fram í.) Það eru 700 milljónir í laun. Ef við færum þann pening beint í ákveðin verkefni — vissulega kann að vera að eitthvert álag (Forseti hringir.) verði á starfsmenn annars staðar en sannarlega þarf ekki mikil gögn til að sjá sparnaðinn og hagræðinguna í því og betri nýtingu á peningum.