152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held að allir hér inni sem horfðu á það skelfilega myndband sem við fengum að sjá fyrr í vetur, fyrr í sumar eða haust, hafi tárast við að sjá það. Það er að sjálfsögðu þannig að við finnum öll til þegar við sjáum slæma meðferð á dýrum. Það er vert að hafa í huga hvernig skilgreiningin á slæmri meðferð hefur breyst í gegnum árin. Það sem þótti allt í lagi einu sinni þykir ekki í lagi í dag og sem betur fer hefur skilgreining og vitund okkar á því hvað er slæm meðhöndlun breyst til hins betra, rétt eins og gerst hefur varðandi mannréttindi og ýmislegt annað. Við megum ekki gleyma því að það eru ekki mörg hundruð ár síðan að það þótti bara allt í lagi að fara illa með fólk, bara af því að það var öðruvísi á litinn. En stóra spurningin sem við þurfum að spyrja okkur sjálf er hvort við ætlum að banna allt blóðmerahald eða allt þetta, af því að einhverjir bændur hafi ekki fylgt þeim lögum sem gilda þar um. Eða þurfum við að bæta eftirlitið, fræðsluna, rannsóknir, já, og reglur um blóðmerahald? Þetta eru spurningar sem við þurfum að spyrja okkur hér á þingi en líka utan þings og við þurfum að eiga umræður á breiðum grunni um þróun þessara mála, um það hvernig við nýtum dýr til manneldis, lyfjaframleiðslu nú eða skemmtunar.