141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka heils hugar undir með hv. síðasta ræðumanni. Ég lýsi mig algerlega sammála því sem hún sagði að við þær aðstæður sem nú eru uppi í ríkisfjármálum er algert lykilatriði að horft sé í hverja einustu krónu og skal fjármunum skattgreiðenda varið af raunsæi og með réttu forgangsröðunina að leiðarljósi. Með því að leggja umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til hliðar mætti til dæmis spara fleiri hundruð milljónir. Kostnaðurinn við það brölt mun nema að minnsta kosti 1 milljarði þegar því er lokið og það finnst mér sóun á fjármunum þegar við erum að velta fyrir okkur hverri krónu.

Ég kem líka hingað til að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um hversu óþolandi er að lesa um það á vefsíðu samtaka úti í bæ hver samningsafstaða Íslands í landbúnaðarmálum eigi að vera í því aðildarferli. Neytendasamtökin eru af einhverjum ástæðum ekki bundin trúnaði í þeirri vinnu sem samningahópur um landbúnaðarmál eins og við í utanríkismálanefndinni erum. Ég verð að segja að það ástand er fullkomlega óþolandi og ég lýsi því eiginlega yfir að ég neita að viðhafa þennan trúnað þegar í ljós kemur að um þetta er rætt á opinberum vettvangi hingað og þangað um bæinn. Ég ítreka kröfu mína og ósk um opinn fund í utanríkismálanefnd til að ræða sérstaklega stöðuna í XII. kaflanum og almennt hvernig farið er með aðkomu Alþingis og trúnað á þeim upplýsingum.