151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[23:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof. Ég ætla að fókusera á það meginefni frumvarpsins sem lenging fæðingarorlofsins er og sérstaklega á skiptingu þess milli foreldra, þennan hluta sem varð undir í pólitísku hanaati, pólitískum hanaslag stjórnarflokkanna síðustu daga. Þetta fína frumvarp er afurð vinnu sem hófst í september 2019 en þá skipaði félags- og barnamálaráðherra samstarfshóp til heildarendurskoðunar laga um fæðingar- og foreldraorlof. Í þeim hópi áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Hlutverk hópsins var að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni og vinna að frumvarpi að nýrri heildarlöggjöf í tilefni þess að í ár eru 20 ár liðin frá gildistöku laganna. Mér þykir mikilvægt að halda því til haga.

Saga okkar í fæðingarorlofsmálum síðustu tvo áratugi er saga framfara. Vissulega hafa oft verið stigin lítil skref en þau hafa öll verið í rétta átt. Fyrir lögin sem voru sett árið 2000 og skutu Íslandi ekki bara til nútímans heldur inn í framtíðina tóku einungis mæður sitt fæðingarorlof, sem undir lokin var orðið sex mánuðir, og reyndar ekki allar mæður, það var ekki einu sinni svo gott. Árið 2001 urðum við konan mín mæður þegar ég fæddi tvíburadætur okkar. Ég var á þeim tíma í námi og hin móðirin átti engan rétt. Það var framsýni og velvild vinnuveitanda hennar, Styrmis Gunnarssonar, þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem gerði að verkum að konan mín, móðir nýfæddra tvíbura, átti þess kost að vera heima með börnunum okkar fyrstu mánuðina.

Færum okkur nær nútímanum, nær betri tíð. Þau skref sem hafa verið stigin síðustu ár í átt að jöfnun fæðingarorlofs á milli foreldra sýna svart á hvítu að feður hafa nýtt sjálfstæðan rétt sinn, misjafnlega mikið að vísu, en lítið sem ekkert af þeim tíma sem foreldrar geta skipt á milli sín. Tölfræðin talar einfaldlega sínu máli. Í ágúst 2018 stóð orlofið í sjálfstæðum rétti í þremur mánuðum og síðan voru þrír mánuðir „frjálsir“ og nú geri ég gæsalappir vegna þess að, eins og ég kem að síðar, þetta er ekkert frelsi við ákveðnar aðstæður. Þá var staðan nefnilega sú að af þeim tæplega 1600 feðrum sem nýttu a.m.k. eitthvað af þriggja mánaða sjálfstæðum rétti sínum voru ekki nema 137 sem nýttu eitthvað af sameiginlegum rétti. Ef tölur frá Fæðingarorlofssjóði eru rýndar áfram sýna þær að það ár tóku karlar orlof í 81 dag og konur að meðaltali í 183 daga. Þar munaði 100 dögum. Konur nýttu sameiginlegu mánuðina ekki bara í upphafi heldur er staðan þannig núna. Þetta eru staðreyndir málsins.

Herra forseti. Rétt er að halda því til haga að 12 mánaða fæðingarorlof var samþykkt hér á þingi fyrir ári og gengið frá því í tveimur skrefum, fyrst með aukningu í tíu mánuði sem tók gildi í byrjun þessa árs og svo taka 12 mánuðirnir gildi í byrjun næsta árs. Það er fagnaðarefni. Það sem út af stóð fyrir ári var skiptingin þar sem sjálfstæður réttur foreldra til orlofs er fimm mánuðir, svokölluð fimm, tveir, fimm skipting, sem raungerist samkvæmt reynslu sem fimm mánuðir og sjö mánuðir. Sú skipting stóð í íhaldssamari hluta þingsins og í íhaldssama hluta stjórnarmeirihlutans. Nú stöndum við aftur hér, aftur að ræða það að bakka frá upphaflegum tillögum. Aftur hefur íhaldsarmur ríkisstjórnarinnar sýnt styrk sinn, aftur stoppar skiptingin fimm, tveir, fimm sem raungerist samkvæmt öllum tölulegum upplýsingum sem fimm og sjö, aftur stoppar það mál hjá hinum íhaldssama armi.

Í breytingartillögum meiri hlutans er það kallað málamiðlun að fara úr þessari skiptingu til baka yfir í 4,5 og 7,5 eða hvort við köllum það — og nú er ég alveg rugluð í þessari talnaleikfimi — að bakka úr því að einn mánuður sé svokallaður valfrjáls mánuður yfir í að það séu sex vikur. Þetta er málamiðlunin af því að einhvern tímann á tímabilinu var því hótað að hér ætluðu íhaldsöflin algjörlega að taka yfir og fara yfir í fjóra, fjóra, fjóra, þ.e. að minnka sjálfstæðan rétt niður í fjóra mánuði. Þetta er málamiðlun og við skulum hafa það á hreinu að þetta er ekki málamiðlun þingsins endilega, þetta er málamiðlun innan ríkisstjórnarflokkanna. Það er meiri hluti ríkisstjórnarinnar sem talar um málamiðlun meðal ríkisstjórnarflokkanna á meðan við hin sitjum og horfum á í forundran.

Reynslan sýnir okkur síðan að það er tekjuhærra foreldrið sem mun í rúmlega 90% tilfella ekki nýta sameiginlega réttinn. Það er verulega miður og mér þykir leitt að jafnréttissinnaðir flokkar á borð við VG og Framsókn hafi ekki staðið fast á sínu. Mér þykir leitt að tal um valfrelsi í orði hafi orðið ofan á, á kostnað valfrelsis á borði, raunverulegs valfrelsis, og að sýndarmennskan hafi unnið. Hið raunverulega valfrelsi varð hér undir, það valfrelsi sem næst með raunverulegu jafnrétti. Þau íhaldssömu sjónarmið sem eru að vinna áfangasigur, ef að líkum lætur, fela í sér tálsýnina um að það þurfi bara að hafa skiptingu fæðingarorlofsins frjálsa til að hér ríki frelsi, að fullkomið val foreldra um það hvernig fæðingarorlofinu er skipt hljóti að þýða fullkomið frelsi. Eins og við sjáum þegar við rýnum í staðreyndir þá er það tálsýn. Það er tómt mál að tala um valfrelsi og raunverulegan sveigjanleika þegar jafnrétti er ekki náð. Það er tómt mál að tala um raunverulegt frelsi hér þegar leikreglurnar eru þannig að þær fela í sér skekkju. Faðir sem er litinn hornauga í vinnu þegar hann sýnir áhuga á að fara í fæðingarorlof sem hann þarf ekki að fara í hefur ekki raunverulegt val.

Versta arfleifð hinnar 50 ára gömlu hefðar okkar er þó þegar orðræða íhaldsaflanna fer yfir í þann þvætting að börnum sé í frumbernsku betur borgið með mæðrum sínum en feðrum. Rannsóknir sýna svo að ekki verður um villst að börnum vegnar best og hagsmunir þeirra eru best tryggðir þegar báðir foreldrar taka jafnan og virkan þátt í uppeldi þeirra frá frumbernsku. Okkur ber jú að gera það sem er börnunum fyrir bestu. Staðreyndin er sú að í 50 ár var fæðingarorlof með lögum bundið við konur og með þeirri miðstýringu festu stjórnvöld í sessi þau kynjahlutverk að konum væri ætlað að vera heima hjá ungum börnum en karlar ættu að vera á vinnumarkaði. Við vitum betur núna og við viljum annað núna en það kostar átak að vinda ofan af hálfrar aldar innrætingu. Valfrelsi er tálsýn á meðan samfélagslegur þrýstingur er mikill og byggist á sögulegri miðstýringu ríkisins.

Ég ætla að lesa úr umsögn Samtaka atvinnulífsins sem styðja sjálfstæðan rétt foreldra, hvors um sig, til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði og styðja að foreldri verði heimilt að framselja einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins, styðja frumvarpið eins og það er lagt fram án málamiðlunarbreytingartillögu meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Slík tilhögun er best til þess fallin að ná markmiði laganna sem er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ — Og enn fremur: „Þannig stuðlar jöfn skipting fæðingarorlofs foreldra að jafnrétti á íslenskum vinnumarkaði.“ — Mig langar að endurtaka þetta, herra forseti: „Þannig stuðlar jöfn skipting fæðingarorlofs foreldra að jafnrétti á íslenskum vinnumarkaði.“

Herra forseti. Fjölmargir þeirra sem sendu inn umsagnir við málið og mættu á fund velferðarnefndar bentu á að nauðsynlegt væri að hækka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, m.a. til að ná því markmiði að báðir foreldrar nýttu sér rétt sinn til fæðingarorlofs og að réttur barnsins til að eyða tíma með báðum foreldrum væri uppfylltur. Ástæðan er einföld, kynbundinn launamunur er enn þá staðreynd, því miður. Það er skiljanlegt að tekjuhærra foreldrið, sem er mun oftar faðirinn þegar foreldrar eru gagnkynhneigðir, taki síður valfrjálsan hluta fæðingarorlofsins. Það er alþekkt staðreynd að fjárhagur heimila vegur þungt í allri ákvarðanatöku, þar á meðal þessari. Háar greiðslur auka líkur á því að tekjuhærra foreldrið nýti sér sjálfstæðan rétt sinn að fullu og taki jafnframt hluta af sameiginlega réttinum. Í ljósi staðreynda um kynbundinn launamun myndu hærri fæðingarorlofsgreiðslur líklega hvetja fleiri feður til að taka lengra fæðingarorlof sem myndi stuðla að jafnari stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og inni á heimilum og tryggja betur rétt barna til að njóta samvista við báða foreldra. Hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði bæta upp gallana við báðar leiðir sem bent hefur verið á. Sé sameiginlegi rétturinn styttri tryggir það minna tekjutap fyrir foreldra í fæðingarorlofi og sé sjálfstæði rétturinn lengri stuðlar það að því að báðir foreldrar hafi tök á að nýta sér réttinn til jafns. Ég styð raunverulegt valfrelsi á sem flestum sviðum. Þess vegna hef ég, ásamt félögum mínum í Viðreisn, lagt fram breytingartillögu sem, ef samþykkt verður, er mikilvægt og sterkt spor í þá átt að stuðla að raunverulegu jafnrétti og raunverulegu valfrelsi foreldra varðandi töku fæðingarorlofs.

Tillagan er einföld. Hún felur í sér að hámarksfjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkuð úr 600.000 kr. í 800.000 kr. á mánuði. Þar er miðað við meðaltal heildarlauna fullvinnandi karla sem er rúmlega 150.000 kr. hærra en meðaltal launa fullvinnandi kvenna. Sú hækkun mun bæta stöðu allra nýbakaðra foreldra og tryggja börnum aukna umgengni við báða foreldra. Því til viðbótar hef ég lagt fram tillögu um að lágmarksfjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkuð úr ríflega 83.000 kr. í tæplega 125.000 kr. Þannig tryggjum við börnum betri farborða út í lífið enda er raunverulega engin stoð fyrir jafn lágri lágmarksfjárhæð og hæstv. félags- og barnamálaráðherra leggur til í frumvarpi sínu. Kostnaðaraukinn við þessar breytingar yrði rétt rúmlega 1,2 milljarðar kr., reiknað út frá fjölda fæddra barna síðustu ár. Nánar tiltekið er áætlaður kostnaðarauki 1,2 milljarðar ef hámarksgreiðslur yrðu hækkaðar úr 600.000 í 800.000. Sú áætlun tekur mið af raungögnum fyrri ára varðandi launadreifingu, fjölda daga sem foreldrar taka og skiptingu orlofsins milli þeirra. Ef lágmarksgreiðslur eða fæðingarstyrkur foreldra utan vinnumarkaðar og þeirra sem eru í lægra en 25% starfshlutfalli yrði hækkaður úr 83.000 kr. í 124.850 væri áætlaður kostnaðarauki um 106 millj. kr. Sú áætlun tekur mið af fjölda foreldra sem fengu fæðingarstyrk vegna barna fæddra árið 2018.

Þetta eru vissulega töluverðar fjárhæðir þótt það verði að segjast eins og er, svo að ég leyfi mér nú aðeins að fara út í aðra sálma, að eftir þau fjölmörgu mál sem hér hafa verið lögð fram undanfarið til að bæta stöðu fólks í tengslum við kórónuveirufaraldurinn eru milljarðarnir orðnir ansi margir sem við fjöllum um. En hér erum við að hugsa til lengri tíma. Þetta mál tengist ekki kórónuveirufaraldrinum. Við erum að hugsa þetta til lengri tíma. Í því tilliti eru þetta ekki þær fjárhæðir sem allt veltur á, ekki slíkar fjárhæðir að ekki sé hægt að verja þeim í að bæta úr þessari stöðu. Þetta er mikilvægt skref, nauðsynlegt reyndar, í þá átt að tryggja raunverulegt valfrelsi, ekki sýndarfrelsið sem íhaldsöflin kalla eftir heldur raunverulegt valfrelsi. Þetta er rétt skref í þá átt að búa til þær aðstæður að réttur foreldra til að sinna barni sínu sé jafn, að réttur barns til að njóta samvista við báða foreldra sé tryggður. Þetta er rétt skref í þá átt að tryggja að einstaklingsrétturinn sé virtur, að enginn, ekki vinnuveitandi, ekki fjárhagsáhyggjur, ekki gamall úreltur kúltúr, ekkert af þessu, taki af einstaklingi, hvers kyns sem hann er, réttinn til að nýta dýrmætan fæðingarorlofstíma með barni sínu.

Herra forseti. Við í Viðreisn styðjum þetta mál í heild sinni. Við höfnum hins vegar breytingartillögu þeirri sem meiri hlutinn hefur lagt hér fram á lokaskrefunum. Það er skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni. Það skiptir í því samhengi ekki öllu hvort skrefið er stórt eða lítið. Það sem skiptir máli er að þetta er skref í ranga átt. Þetta er skref til baka, þetta er bakslag. Þetta bakslag verður hins vegar sýnu minna, þynnist jafnvel vonandi út, verði tillaga Viðreisnar um hækkun hámarksgreiðslna og lágmarksgreiðslna samþykkt. Ég vona að framsýn jafnréttisöfl á þingi, sama hvar í flokki þau standa, tryggi að svo verði.