154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

flutningur barna úr landi og réttindi þeirra samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem tók nú á allmörgum og ólíkum málum. Í fyrsta lagi er hér rætt um mál sem tengist Noregi og börnum í því máli þar sem yfir hefur staðið ákveðin forræðisdeila. Ég vil segja um það mál að við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hversu mikið stjórnmálamenn eiga að stíga inn á verksvið dómstóla í þeim efnum því að þar liggur fyrir dómur sem hefur verið staðfestur af Landsrétti. Það hefur verið tekist á um þetta á milli lögmanna en þar auðvitað stöndum við stjórnmálamenn frammi fyrir því að dómstólar hafa mjög ríkt sjálfstæði og eins ríkissaksóknari sem fer með þann þátt mála í dómskerfinu. Mér finnst sjálfsagt að við hér á Alþingi veltum því fyrir okkur hvort við viljum breyta einhverju í lögunum og reglunum sem við höfum undirgengist, hvort sem það er evrópska handtökutilskipunin, framsalssamningar eða hvernig nákvæmlega við virðum niðurstöður dómstóla. En ég minni á að í þessu máli er þetta svo, og ég hefði talið að meiri hluti hv. alþingismanna væri þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn ættu ekki að stíga inn í störf dómstóla.

Hvað varðar síðan önnur þau mál sem hv. þingmaður nefndi og varða þá m.a. sama mál og hv. þm. Logi Einarsson fór hér yfir þá vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það mál er enn til meðferðar hjá þeim stofnunum sem við höfum samþykkt að eigi að fjalla um málefni m.a. fylgdarlausra barna. Þar hefur verið lögð rík áhersla á að það fari fram sérstakt hagsmunamat á stöðu barna og ég vísaði til umræðu um þau mál hér í tíð fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra sem beitti sér mjög fyrir því. (Forseti hringir.) Ég ítreka það að mér finnst mjög mikilvægt að þeirri málsmeðferð ljúki áður en við leggjum á það eitthvert mat (Forseti hringir.) hvort það hagsmunamat hafi farið fram eða ekki.