154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

fyrirkomulag samstarfs og samhæfingar í stjórnkerfinu vegna náttúruvár.

[15:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það kemur ekki á óvart að hún setji þetta mál á dagskrá enda vitnaði hún í fyrri tillögur sínar um málin. Ég held raunar, ef við lítum aftur fjögur ár, allt frá óveðrinu mikla sem gekk yfir norðurhluta landsins 2019 og til allra þeirra atburða sem hv. þingmaður vitnaði til sem hafa orðið síðan, að það væri ekki óskynsamlegt fyrir Alþingi að fara aðeins yfir þessi mál heildstætt. Við erum með náttúruhamfaratryggingu sem þjónar ákveðnu hlutverki sem varðar tjón á íbúðarhúsnæði og húsnæði sem orðið er. Náttúruhamfaratrygging fer ekki með forvarnahlutverk. Það gerir ofanflóðasjóður en hann er með mjög afmarkað hlutverk. Þegar ég mælti fyrir frumvarpi um varnargarða á Reykjanesi þá ræddi ég sérstaklega mikilvægi þess að við settum á dagskrá einhverja heildstæða mynd af því hvernig við ætlum að tryggja forvarnir gagnvart náttúruvá sem ekki er eingöngu ofanflóð. Horfum til að mynda á hækkandi sjávarstöðu og þá stöðu sem byggðir sem liggja nærri sjó og liggja lágt eru í gagnvart því, svo dæmi sé tekið. Ég gæti haldið áfram og rætt margt hér. Við höfum lært mjög mikið á þessum fjórum árum. Það hefur verið starfandi ráðuneytisstjórahópur sem hefur séð um samhæfingu aðgerða í stjórnkerfinu en mér finnst full ástæða til að við förum aðeins yfir þá lærdóma sem við höfum dregið. Við erum búin að kortleggja gríðarlega vel innviði landsins og hvernig við getum tryggt þá betur og varið betur gagnvart náttúruvá. Ég held að við þurfum bara að ráðast í miklu almennari sýn á forvarnir gagnvart náttúruvá en eingöngu í gegnum ofanflóðasjóð og ég held að það sé eðlilegt að einhverju leyti að þetta sé tvískipt, þ.e. að við séum annars vegar með trygginguna og hins vegar með forvarnirnar. Við þurfum líka að ræða okkar viðbragðsaðila og ég vil bara segja það hér að það er fámenn sveit (Forseti hringir.) sem stendur vaktina hér í hverju ástandinu á fætur öðru. Ég held að það sé full ástæða til að við ræðum þessa forgangsröðun á Alþingi Íslendinga því að við eigum eftir (Forseti hringir.) að þurfa að takast á við fleiri hamfarir og við erum að leggja ansi miklar byrðar á ansi fáa einstaklinga.