141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þessi rammaáætlun er komin til síðari umr. og ekki ólíklegt að hún komi til atkvæðagreiðslu í desember eða janúar, það fer eftir því hvað umræðurnar verða ítarlegar um þetta mál.

Eins og kom fram í andsvörum milli hv. þingmanns og félaga hans, hv. þm. Kristjáns L. Möllers, sem á sæti í atvinnuveganefnd, hafa einungis verið gerðar breytingar í aðra áttina þrátt fyrir að það hafi komið fram í umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar að samfélagslegir þættir kynnu að valda því að skynsamlegt væri að ráðast í ákveðna virkjunarkosti. Fjallað var um stöðu einstakra lítilla sveitarfélaga í því samhengi o.s.frv.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann veltir því upp hvar hin pólitíska hönd hafi snert málið. Það var þegar ráðherrarnir tóku við því eftir umsagnarferlið og áður en þingsályktunartillagan var formlega lögð hér fram í fyrravor. Það kom ágætlega fram í ræðu minni og þá var gripið inn í þá faglegu nálgun sem var á málinu. Ég held að það sé mjög gagnrýnivert því að það er mjög mikilvægt, eins og ég sagði um þessi mál, að um þau náist víðtæk sátt. Það gerist ekki með svona vinnubrögðum og það gerist ekki með því að gripið sé inn í með þessum hætti. Þess vegna óttast maður, því miður, að rammaáætlun sem þessi sem mikil fagleg vinna hefur farið í í langan tíma verði einungis samþykkt til sex mánaða. Ég held að sú verði raunin með þessa áætlun ef hún nær fram að ganga í þeirri mynd sem hún liggur fyrir í í dag.