148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp í veikburða tilraun til að endurgjalda þá miklu jákvæðu athygli og þann mikla hlýhug sem Viðreisn fékk á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi og ræða hér um stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi staðsetningu Landspítalans.

Ég bað um að eiga orðastað um þetta við hv. þm. Óla Björn Kárason og ég þakka honum fyrir að fallast á það.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir, með leyfi forseta:

„Lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu með öryggi og sterkari samgönguleiðum að leiðarljósi.“

Þetta vekur upp spurningar. Hvað er komið á framkvæmdastig? Það er sjúkrahótelið, er það ekki? En meðferðarkjarninn? En rannsóknarhúsið? En háskólinn? Varla eru þessar framkvæmdir komnar á framkvæmdastig, eða hvað? Ég þykist raunar vita hvað þeir áttu við sem lögðu þetta til, hinn sívaxandi miðflokksarmur Sjálfstæðisflokksins, að sjúkrahúsið yrði byggt einhvers staðar annars staðar en við Hringbraut. Ef það er rétta túlkunin er þessi framkvæmd komin í algert uppnám, er það ekki?

Redding forystu Sjálfstæðisflokksins út úr þessu hefur verið — takið nú eftir — að byggja tvo spítala. Tvo. Ég veit að það er góðæri í landinu og allir að eyða peningum, en er þetta ekki fullmikið af hinu góða?

Aðeins að lokum varðandi umferðina sem stundum er nefnd. Landspítalinn hefur staðið sig vel í að hvetja fólk til að fara í vinnuna með umhverfisvænum hætti. 40% starfsmanna fóru samkvæmt könnun árið 2016 í vinnuna gangandi, hjólandi eða með strætó. Hvað halda menn að margir fari gangandi, hjólandi eða með strætó að Vífilsstöðum?

Mig langar samt að spyrja hv. þingmann: Hve marga þjóðarspítala vill Sjálfstæðisflokkurinn byggja? Hvar eiga þeir að vera?