133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari.

200. mál
[15:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fyrirspurn mín beinist að samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands, sem boðuð var í svari fyrrverandi umhverfisráðherra á síðasta þingi, held ég að ég fari örugglega rétt með.

Ég spyr líka um þá stofna sjófugla sem hefur hallað á, eða sjófugla og strandfugla sem helst hefur hallað á undanfarin sumur, kríu, stuttnefju og langvíu. Ég spyr sérstaklega um ástand toppskarfs í Breiðafirði sem menn segja að sé óvenjulega bágt og hafa haft áhyggjur af nú í sumar og í haust.

Að lokum spyr ég ráðherra hvort hann telji með ráðgjöfum sínum að þær breytingar sem nú standa yfir, það bága ástand á stofnum sjófugls sem nú virðist raunin, hvort það tengist yfirstandandi loftslagsbreytingum. En upplýsingar frá grannlöndum benda til að þetta séu ekki breytingar sem einskorðaðar eru við Ísland heldur eigi sennilega við um allt Norður-Atlantshafið eða norðurslóðir almennt.

Eins og ljóst er af þessum inngangi er þetta ekki í fyrsta sinn sem fyrirspurn lík þessari er borin fram. Undanfarin ár virðast stofnarnir hafa lent í áföllum. Varp hefur mistekist og fjöldinn minnkað í stofnunum. Það er mikilvægt að fylgjast með þessu og grafast fyrir um orsakirnar. Í fyrsta lagi vegna fuglanna sjálfra sem eru auðvitað órjúfanlegur hluti af náttúru Íslands og rannsóknarefni og ánægjuefni í sjálfu sér. Í öðru lagi vegna lífríkisins almennt við ströndina og sjóinn, vegna nytjastofnanna í sjó en rannsóknir á sjófuglunum geta veitt innsýn í ástand þeirra vegna þess að fæða þeirra getur að einhverju leyti verið sú sama. Að minnsta kosti er fæðukeðjan lík að einhverju leyti. Og í síðasta lagi vegna þeirra breytinga sem standa yfir á loftslagi og okkur er skylt að fylgjast mjög vel með.

Ég hlakka til að heyra svörin. Mér er líka ljóst að menn eiga ekki að vera of bráðir að tengja þetta beint við loftslagsbreytingarnar vegna þess að við vitum um miklar sveiflur í þessum stofnum fyrr. Bæði úr frásögnum vísinda- og fræðimanna og reyndar úr annálum allt aftur til forneskju.