144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir prýðilega ræðu. Ég er sammála hv. þingmanni með þá skírskotun í fótboltaleik að þetta er ekki fótboltaleikur. Sigurvegarinn er einn, það er í því samhengi, sigurvegarinn er þjóðfélagið allt. Þess vegna skiptir það býsna miklu máli í heildarsamhenginu vegna þess að hér birtist heildarstefnumörkun, fjármálastefna hverrar ríkisstjórnar. Tekjumegin er verið að gera gagngerar breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Þá verðum við að skoða heildarmyndina. Þetta eru 30% af heildarskatttekjum og af því að hv. þingmaður kom vel inn á vinnubrögð ætla ég að hrósa hv. þingmanni og flokki hennar fyrir býsna athyglisverða skoðanakönnun sem ég fékk að glugga í þar sem birtist skýr forgangsröðun. Öll þjóðin er sammála um að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðiskerfis og menntamála.

Meginmarkmið í vinnu okkar, hv. fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, var að verja alla tekjuhópa talið eftir tíundum. Fram kemur í frumvarpinu að ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa munu hækka. Vísitala neysluverðs mun lækka, sem gagnast öllum, líka þeim sem eru á leigumarkaði, þeim sem eiga húsnæði.

Getur hv. þingmaður ekki séð ljósið í (Forseti hringir.) heildarstefnumörkuninni?