146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

framkvæmdir við flughlað á Akureyrarflugvelli.

[10:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Hún er mjög mikilvæg. Það er alveg hárrétt sem á er að bent að flugumferð hefur aukist alveg gríðarlega með vaxandi ferðamannastraumi. Fyrir um tíu árum rak Icelandair um tíu flugvélar, þeir eru með um 30 í dag, Wow air er með 20 vélar og 29 flugfélög fljúga með farþega til og frá landinu í sumar. Það gerir auðvitað kröfur til þess að varaflugvallarmál séu skoðuð alveg sérstaklega. Það er alveg rétt, við glímum hér við þá fjármuni sem við setjum í samgöngumál og höfum ekki getað unnið að stækkun á flughlaðinu á Akureyri eða öðrum úrbótum á öðrum flugvöllum til að mæta þessu þjónustuhlutverki. Þannig er varavöllur oft notaður af flugfélögum í Skotlandi, þ.e. á áætlunum þeirra. Flugvöllurinn á Akureyri, það er ágætt að það sé samt tekið inn í myndina að hann er erfiður fyrir flugfélög almennt að því leyti að það krefst sérstakar þjálfunar flugmanna til að fljúga þar inn. Það er því fyrst og fremst Icelandair sem getur nýtt sér þann völl sem varaflugvöll, önnur félög þurfa sérstakt þjálfunarprógramm fyrir sitt fólk.

Við þurfum að skoða þessi mál. Hráefnið er til fyrir norðan og brautin þar var lengd fyrir á annan milljarð fyrir nokkrum árum til að greiða fyrir millilandaflugi, sem ekki hefur gengið eftir. En við þurfum að reyna að koma þessu hráefni í notkun og eitt af þeim mörgu verkefnum sem bíða okkar í samgöngumálum er að horfa einnig til þessara þátta.