151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að taka undir með hv. þingmanni að mikið óskaplega er alltaf hressandi að heyra í forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, (HHG: Heyr, heyr.) því að þar fer forstjóri sem leysir verkefni sín afskaplega vel. Heilsugæslunni hefur vaxið ásmegin svo eftir því er tekið á þessu kjörtímabili og ekki síst undir hans forystu. Það sem Óskar lagði mikla áherslu á var að hann væri með verkfæri fyrir mjög fjölbreyttar tegundir sviðsmynda, þ.e. að efnin kæmu mjög hratt og þau kæmu á mismunandi hraða og það myndi aldrei slá heilsugæsluna út af laginu. Það er mikilvægt.

Varðandi tengslin við Svíþjóð þá veit hv. þingmaður að við þurfum að vera með pro forma millilið gagnvart Evrópusambandinu. Það er þannig. Í þessu tilviki er það Svíþjóð. Hv. þingmaður spyr líka um hvort þetta hafi áhrif á gæði bólusetninga. Það er ekki svo. Hér bendir hv. þingmaður með réttu á að þarna erum við að telja upp fyrstu 50.000 skammtana frá þessum eina framleiðanda, svo hv. þingmaður haldi því til haga.