151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Fyrst aðeins varðandi upplýsingar á vef og hversu aðgengilegar þær eru þá sjáum við fyrir okkur að það geti verið lifandi upplýsingar um það hversu hratt bólusetningunni vindur fram, að við ættum að geta séð það frá degi til dags hversu hratt henni vindur fram.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um bólusetningar og skírteini o.s.frv. þá er verið að skoða rafrænar lausnir. Við gerum ráð fyrir að þetta fari rafrænt inn í Heilsuveru og að við höldum síðan áfram þeim samskiptum sem við erum í alþjóðlega varðandi gagnkvæmar viðurkenningar á vottorðum. Það er allt í gangi og ég vænti þess að við höldum áfram að ná árangri í því, bæði að því er varðar upplýsingar um að maður sé ekki með smit innan 72 tíma, sem hefur stundum verið rætt að geti gilt sem fyrri skimun á landamærum, og þá komi sú síðari. Það er ein leið. Við erum að skoða með Eistum vangaveltur um samræmd vottorð sem væri hægt að nota á heimsvísu en það eru stafrænar, mjög nútímalegar lausnir. Það er mjög mikil meðvitund um mikilvægi þess að eftir því sem bólusetningum og þessum árangri vindur fram meðal þjóða auki það líka opnun og samskipti milli þjóða og verði til þess að takmarkanir á landamærum verði líka endurmetnar. Þá er manni auðvitað mjög ofarlega í huga norrænt samstarf vegna þess hversu keimlík kerfin eru að mörgu leyti á annan hátt.