154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með þeim hörmungum sem eiga sér stað á Gaza þessa dagana. Eftir að vopnahléi lauk tóku Ísraelsmenn til við sína fyrri iðju við að strádrepa palestínska borgara sem að stórum hluta er ungt fólk og börn. Það er ekki undir neinum kringumstæðum hægt að samþykkja það að Ísraelsmenn eyði íbúum Gaza eins og lítur út fyrir að verði raunin. Því þarf að mótmæla kröftuglega. Ísland hefur sterka rödd þegar kemur að friðarmálum, langt umfram stærð okkar, en nú þarf að ná breiðari samstöðu um að mótmæla þessari skelfilegu stöðu. Það ætti að vera hlutverk hæstv. utanríkisráðherra að vinna að því að ná samstöðu með hinum Norðurlandaþjóðunum um að þær komi fram sem ein heild þegar kemur að því að tryggja frið í Palestínu. Meira að segja helstu bandaþjóð Ísraels er ofboðið. Varaforseti Bandaríkjanna biðlaði til Ísraels um að virða alþjóðalög og sagði að of margir saklausir borgarar hefðu verið drepnir í Palestínu. Það má ekki viðgangast að eitt mest tæknivædda herveldi heimsins leyfi sér að murka lífið úr saklausum borgurum til að eyða hryðjuverkasamtökum sem búið hafa um sig á þessu svæði.

Á sama tíma og við myndum ætla að Ísland beitti sér af einhverri manngæsku þá les maður fréttir um að það standi til að vísa tveimur fylgdarlausum palestínskum drengjum úr landi. Þessir ungu drengir, sem eru 12 og 14 ára, komu hingað með frænda sínum en var komið fyrir hjá öðrum við komuna til landsins. Hér hafa þeir þrifist vel en nú á hins vegar að senda þá á götuna í Grikklandi. Hvernig dettur okkur í hug að láta þetta gerast? Samrýmist þetta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?

Virðulegur forseti. Hvaða rugl er þetta eiginlega? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)