135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fjárlög fyrir árið 2008 koma nú til 3. umr. Hér hefur hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson mælt fyrir nefndaráliti meiri hlutans. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur gert grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sem við stöndum saman að, sá sem hér stendur, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hv. fjárlaganefnd, og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fulltrúi Frjálslynda flokksins í fjárlaganefnd. Við 2. umræðu fjárlaga skiluðu sömu fulltrúar sömu flokka mjög ítarlegu nefndaráliti varðandi hina ýmsu þætti fjárlagagerðarinnar og fjárlaganna og leyfi ég mér einnig að vísa til þess.

Það sem vekur athygli við fjárlögin, eins og rakið hefur verið, er að gríðarleg óvissa ríkir að baki öllum þeim grunnforsendum sem fjárlagafrumvarpið er byggt á, bæði tekna- og gjaldahliðin. Við höfum séð hvernig fjárlög fyrir árið 2007 hafa staðið, fjárlög sem voru samþykkt fyrir um ári síðan. Nú í lok þessa árs hafa þau fjárlög tekið breytingum sem nema samtals nærri 100 milljörðum kr., tekna- og gjaldamegin, sem sýnir hversu illa undirbyggð fjárlögin eru.

Þess vegna hef ég lagt til og lagði til í hv. fjárlaganefnd að grunnforsendur fjárlagagerðarinnar yrðu endurskoðaðar fyrir 3. umr., áður en Alþingi afgreiddi fjárlögin frá sér. Þær forsendur sem fjárlagagerðin byggir á eru nú þegar orðnar um hálfs árs gamlar. Orðið hafa gríðarlegar breytingar á haustmánuðum og nú síðustu daga á ýmsum stærðum þjóðarbúsins. Við höfum orðið vitni að gríðarlegu hruni eða falli á hlutabréfamarkaði og síðan fjárlagafrumvarpið var lagt fram hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti þrátt fyrir að yfirlýsingar og væntingar lægju fyrir um annað þegar frumvarpið var lagt fram. Þá var gert ráð fyrir því að Seðlabankinn mundi lækka stýrivexti en á þeim tíma sem fjárlagafrumvarpið hefur verið til meðhöndlunar hafa stýrivextir verið hækkaðir.

Ég tel því að bæði fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd hefði borið að endurskoða og fara ofan í allar forsendur fjárlaganna bæði tekna- og gjaldamegin til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir og meta raunveruleikagildi fjárlagafrumvarpsins. Samtímis því sem verið er að áætla tekjur ríkissjóðs er líka verið að veita heimildir fyrir útgjöldum og miklu máli skiptir upp á efnahagsstjórnina alla að ríkisfjármálin séu unnin með þeim hætti að hægt sé að bera til þeirra traust. Ég tel mikið skorta á í þeim efnum og tel ábyrgðarhluta að Alþingi afgreiði frumvarpið óendurskoðað t.d. teknalega séð og vísa til þess hvernig gekk á yfirstandandi ári þar sem fjárlagafrumvarpið breyttist um 100 milljarða kr.

T.d. var fjáraukalagafrumvarpið afgreitt fyrir nokkrum dögum þar sem áfram er gert ráð fyrir 0,7% hagvexti á þessu ári. Þótt á það væri bent var ekki talið skipta neinu máli að leiðrétta það en hagvöxtur á þessu ári er líklega einhvers staðar milli þrjú og fjögur prósent og þenslan miklu meiri eins og rauntölur gefa til kynna. Samt var ekki talin ástæða til að breyta grunnforsendum í þann raunveruleika sem hann er. Það sýnir að mínu mati hversu mjög vinnubrögðunum er áfátt og hlutirnir ekki teknir alvarlega.

Önnur atriði sem ég vil víkja að eru ýmsir gjaldaflokkar sem nú eru að koma til lokaumræðu og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum breytingartillögur við. Við flytjum einnig breytingartillögur ásamt fulltrúa Frjálslynda flokksins við ákveðna málaflokka. Ég vík þá að nokkrum þessara þátta sem kveðið er á um í nefndarálitinu og einnig breytingartillögum sem við flytjum.

Ég staldra fyrst við kaflann um heilbrigðismálin en þar tel ég að sé eitt alvarlegast gatið í fjárlagafrumvarpinu að þessu sinni. Reyndar lýsti núverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, því yfir í byrjun síns ferils að það væri einmitt heilbrigðiskerfið sem nú skyldi vaða í og einkavæða, breyta, skera upp var það kallað, og við minnumst öll gleðiláta hæstv. forsætisráðherra á fundi með flokksmönnum sínum í Sjálfstæðisflokknum þar sem hann fagnaði því að Samfylkingin væri komin í ríkisstjórn og nú væri hægt að fara í endurskoðun á heilbrigðiskerfinu á fullu.

Það er einmitt gert. Lykilstofnanir, grunnstofnanir heilbrigðiskerfisins eru afgreiddar fyrir næsta ár með miklum fyrirsjáanlegum rekstrarvanda. Ég nefni Landspítalann, flaggskip heilbrigðisþjónustu landsmanna, miðað við óbreytta starfsemi er talið að þar vanti inn í fjárlög næsta árs um 700 millj. kr. að lágmarki. Hvaða vit er í því? En það virðist vera stefna þessarar ríkisstjórnar að láta það gerast. Við vitum hver staðan í heilbrigðismálunum er. Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því á forsíðu að 200 manns bíði hjartaþræðingar og hvar eru þessar hjartaþræðingar að langmestu leyti framkvæmdar? Á Landspítalanum. Í fréttinni stendur, með leyfi forseta:

„Rúmlega 200 manns bíða eftir að komast í hjartaþræðingu á Landspítalanum. Þá eru fimmtíu manns á biðlista eftir að komast í hjartaskurðaðgerð sem oft er nauðsynleg eftir hjartaþræðingu. Tíu þeirra sjúklinga bíða á hjartadeild þar sem þeir eru of veikir til að vera heima hjá sér. Þeir komast ekki í hjartaskurðaðgerð vegna húsnæðisskorts á gjörgæsludeild.“

Áfram er vitnað í fréttina, með leyfi forseta:

„Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild Landspítalans, segir stöðuna óvenju slæma nú þar sem hvatt hafi verið til að deildin taki við fleiri sjúklingum í hjartaþræðingu til að vinna á biðlistanum.“

Orðrétt er vitnað í yfirlækninn:

„Það er ekki hægt að halda uppi átaki í hjartaþræðingum ef sjúklingar komast ekki í þær aðgerðir sem reynast nauðsynlegar eftir þær, sagði Gestur. Hann bendir á að hjartadeildin búi einnig við húsnæðisskort og oft þurfi sjúklingar að liggja á göngum eftir hjartaþræðingu.

Mér finnst þessi staða með ólíkindum. Það er engin manneskja að gamni sínu á biðlista eftir hjartaaðgerð heldur vegna þess að hún þarfnast aðgerðarinnar bráðnauðsynlega. Líf og heilsa fólks er í veði, segir Bjarni Torfason, yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar, og bætir við: þetta mál þolir enga bið.“

Ég vitna bara hér í eina af mörgum fréttum sem berast um stöðuna í heilbrigðismálunum.

Hver eru svörin hjá ríkisstjórnarflokkunum, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum? Þau eru að svelta á Landspítalann.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum breytingartillögu um að veitt verði fjármagn til Landspítalans upp á 600 millj. kr. sem er lágmarksupphæð til að halda óbreyttri starfsemi. Þessi staða sýnir kannski stefnu núverandi ríkisstjórnar í hnotskurn.

Í vikunni ræddum við um málefni heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að þar er skuld upp á nokkur hundruð milljónir króna, 400–500 millj. kr. frá fyrri árum. Gert er ráð fyrir um 120 millj. kr. halla á þessu ári. Hvorki er komið til móts við uppsafnaðan halla heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu né veitt fjármagn á næstu fjárlögum til þess að hún geti haldið óbreyttum rekstri. Reyndar hafa komið fram mjög ítarlegar greinargerðir, ályktanir af hálfu forsvarsmanna innan heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um að það þurfi 400–500 millj. kr. á næsta ári bæði til að geta haldið uppi þjónustunni og mætt auknum kröfum og aukinni þörf án þess að neitt stórátak sé gert, og að óbreyttu verði Heilsugæslan í Reykjavík að skera niður starfsemina, takmarka þjónustuna, heimahjúkrun, skólahjúkrun, eftirlit með heilbrigði barna og unglinga í skólum o.s.frv. Tillögur hafa komið fram um það hvar helst sé hægt að skera niður, eins og yfirlæknirinn sagði í fréttum í gærkvöldi, til þess að geta staðið um vörð um kjarnastarfsemina. Þá er svar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, sem sumir héldu að væri velferðarflokkur, og Sjálfstæðisflokksins að senda Heilsugæsluna í Reykjavík út á næsta ár með hallann og skertar fjárveitingar til að takast á við þau verkefni sem henni ber.

Síðan talar heilbrigðisráðherra um að taka þurfi upp breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni og að hann þurfi að fá rýmri heimildir til þess að útvista verkefnum, bjóða út, einkavæða. Var nokkur furða þótt hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde fagnaði því að vera kominn með Samfylkinguna með sér í ríkisstjórn til þess að geta vaðið í niðurskurð og einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni? Ætli það verði gaman að fréttum á borð við þá sem ég las áðan geti fjölgað, frú forseti, um þá stöðu? Hver vill vera á biðlista eftir hjartaaðgerð, brýnni aðgerð? Ég held að enginn óski sér þeirrar stöðu.

Í fréttum í hádeginu í dag var talað um að ein leiðin til að spara væri sú að hætta að senda lækni með í sjúkrabíl þegar verið væri að sækja alvarlega veikan sjúkling. Þá var jafnframt upplýst að mörgum hafi einmitt verið bjargað af því að læknir var til staðar og það sé ein ástæða fyrir góðum árangri í skyndiviðbrögðum við að bjarga mannslífum. Ég frábið mér svona stefnu sem birtist þessum hætti á grunnþætti velferðarinnar í landinu, heilsugæslunni.

Við getum rakið áfram fleiri stofnanir á sviði heilbrigðismála sem standa frammi fyrir þessu. Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem oft hefur verið nefnd og hefur orðið að takast á við mikil og ófyrirsjáanleg verkefni en stöðugt búið við fjárskort, fer áfram bæði með halla og ónógar fjárveitingar til næsta árs. Heilsugæslan á landsbyggðinni, heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið, litlar stofnanir sem gegna lykilhlutverki í samfélagi sínu standa líka frammi fyrir því að þurfa að keppa um starfsfólk. Þær standa frammi fyrir því að samfélögin víða, eins og á Vestfjörðum og Norðurlandi, á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, eru með skerta samkeppnisstöðu og skertar tekjur en það er þessi þjónusta, heilbrigðisþjónustan, sem hefur verið grunnþáttur þess að fólk vill búa á þessum stöðum. Það er líka hart sótt að þessum heilbrigðisstofnunum, þeim skipað að halda sig innan einhverra marka og margar þessara stofnana eru nú sendar út á næsta ár með allt of litlar fjárveitingar til að standa undir þeirri starfsemi sem þær nú þegar eru með. Viljum við um leið og við státum okkur af gríðarlegum afgangi ríkissjóðs upp á 80 milljarða á þessu ári og einhverja tugi milljarða, mig minnir milli 30 og 40 milljarða á þessu ári, heldur safna í gamla heyið og láta heilbrigðisþjónustuna blæða?

Ég held að Íslendingar almennt vilji það ekki og þeir séu andvígir þeirri forgangsröðun ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að heilbrigðisþjónustan skuli núna taka á sig vöndinn og vera lögð undir fjársvelti og einkavæðingu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum til að bætt sé í fjárveitingar til heilsugæslustöðvanna út um land, í Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, í heilbrigðisstofnanir, í Landspítalann þannig að þessar stofnanir geti a.m.k. staðið við verkefni sín óbreytt eins og nú er. Við höfnum þeirri stefnu sem núverandi ríkisstjórn virðist keyra fram, að heilbrigðisstofnunum og heilbrigðismálum skuli blæða, þar skuli allar aðgerðir miða að því að teppaleggja fyrir einkavæðingu á því sviði. Því erum við andvíg og flytjum breytingartillögu til þess að halda því sjónarmiði fram. Ég treysti reyndar á meiri hluta Alþingis að styðja við þær tillögur sem við erum með í þessum efnum þannig að við getum áfram státað okkur af öflugu, traustu og góðu heilbrigðiskerfi fyrir alla.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti hins vegar í nefndarálitinu nokkur atriði sem ríkisstjórnin er að gera í heilbrigðismálum, hún er að hækka komugjöldin. Var það þá leiðin að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir um 160 millj. kr.? Þegar við stóðum hér saman, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, á síðasta þingi og fyrrverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hækkaði komugjöldin þá man ég ekki hvort núverandi félagsmálaráðherra sagði sveiattan eða skammastu þín en það var ekki langt þar frá. En nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn þá er allt í lagi að halda áfram á sömu braut og hækka komugjöldin. Það er ekki aðeins að komugjöldin hækki heldur hækka líka viðmiðin til þess að fá afslátt á lyfjum og læknishjálp þannig að nú verða menn að ná hærri upphæðum til þess að fá afsláttarkort svo þetta virkar því tvöfalt hvað það varðar. Þarna kristallast áherslur þessarar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti það einmitt hvernig verið er að hækka sértekjukröfurnar á heilbrigðisstofnanir í landinu sem þýðir að verið er að færa kostnað af heilbrigðisþjónustunni í auknum mæli yfir á sjúklinga, yfir á svokallaða neytendur hvað það varðar.

Ég hefði líka viljað gera elli- og hjúkrunarheimilin að umtalsefni. Elli- og hjúkrunarheimilin eru send út á næsta ár með skertar fjárveitingar. Ég vitnaði í umræðum um fjáraukalög í erindi sem barst frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, þar sem þau benda á að uppsafnaður halli sé á þriðja milljarð kr. frá síðustu árum. En það er ekki aðeins að þessar stofnanir, elli- og hjúkrunarheimilin, fari með hallann á milli ára heldur líka verulega skertar fjárveitingar til að mæta þeim kröfum sem þær þurfa að standa undir á næsta ári. Það er mjög alvarlegt. Það á bæði við um litlu elli- og hjúkrunarheimilin úti um land sem eru einn af hornsteinum hvers samfélags — við viljum jú geta búið eldra fólki, foreldrum okkar, öfum og ömmum, gott ævikvöld í heimabyggð og þar gegna bæði heimahjúkrun og elli- og hjúkrunarheimili lykilmáli.

Það getur vel verið að þau séu ekki öll arðbær í rekstri út frá arðsemiskröfu markaðarins, það getur vel verið að það sé ekki svo. En þetta er það samfélag sem við viljum búa í. Við viljum hafa leikskóla, heilsugæslustöð, hjúkrunarheimili, við viljum hafa þetta allt. Þessar stofnanir eru nú sendar út í næsta ár með verulegan fjárhagsvanda. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut að fara þannig að. Þetta eru grunnstofnanir, þetta er grunnþjónusta, þetta er sú þjónusta sem við viljum standa vörð um. Hvers vegna á að skerða hana? Hvers vegna á að senda hana svelta út í næsta ár? Við höfum því lagt til, frú forseti, að sett verði bráðafjármagn til þess að standa að baki öldrunar- og hjúkrunarheimilunum.

Við höfum einnig lagt fram tillögur sem lúta að elli- og örorkulífeyrismálum og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á það í framsögu sinni um nefndarálit en þetta er nokkuð samhljóða þeirri tillögu sem var flutt við 2. umr. fjárlaga um tekjutryggingu fyrir ellilífeyrisþega, um tekjutryggingu fyrir örorkulífeyrisþega og nýja framtíðarskipan lífeyrismála samhljóða þeirri tillögu sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar fluttu fyrir ári.

Vissulega kemur ríkisstjórnin með bætur þarna á og því ber að fagna. Gerð hefur verið grein fyrir því í ræðum, bæði í ræðum framsögumanns meiri hlutans, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, og í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Mig minnir þó að þegar við vorum saman, þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslynda flokksins, í þessum málum fyrir ári, höfum við talið málið svo brýnt að við ætluðum að láta þessar aðgerðir koma strax til framkvæmda ef við kæmumst í ríkisstjórn. Nú ganga tillögur ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, út á það að hluti af þessu komi í köflum á næsta ári og þarnæsta. Það er verið að teygja það sem var í sameiginlegum tillögum okkar fyrir ári upp í tvö ár, og ég hélt að Samfylkingin mundi standa við þetta, a.m.k. var látið að því liggja í aðdraganda kosninga. Hér eru stigin allt of stutt og allt of aum skref, þó góð séu. Ég tala nú ekki um miðað við þau kosningaloforð sem gefin voru. Hafa verður þörfina í huga, þetta er sá hópur fólks, ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, sem hefur búið við hvað erfiðust kjör og okkur ber og við höfðum lofað að bæta kjör þeirra.

Hvernig er með skattleysismörkin sem Samfylkingin lofaði? Hv. þm. Ellert B. Schram hefur boðið hæst af frambjóðendum Samfylkingarinnar og verið kominn upp í 150 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í.) Mig minnir það, þeir höfðu ekki undan að bjóða, frambjóðendur Samfylkingarinnar, í skattleysismörkunum. (KVM: Það hefur nú töluvert áunnist.) Já, það er gott þegar hv. þm. Karl V. Matthíasson fer að fagna því sem Sjálfstæðisflokkurinn kom þó í verk á síðasta vetri fyrir sameinaðan þrýsting Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins. Samfylkingin hefði fengið meiru áorkað að standa með okkur hinum félagshyggjuflokkunum í stjórnarandstöðu á þingi í velferðarmálum en hún fær í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Skattleysismörkin voru hækkuð upp í ein 90 þúsund, þau fylgja ekki einu sinni verðlagi, þau fylgja ekki einu sinni hækkun á launavísitölu. Frá því að þau voru sett á síðasta vetri, miðað við hækkun á launavísitölu, hafa þau ekki fylgt þeirri vísitölu. Í rauninni er því um lækkun að ræða, það er ekki einu sinni að það sé bætt. Og hvað þá að einhver hluti af loforðunum sem sett voru um það lúti þar að. Við stöndum því saman að tillögu, frú forseti, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, um að a.m.k. verði staðið við þau framlög til elli- og örorkulífeyrisþega sem þessir þingmenn lofuðu síðasta vetur.

Frú forseti. Hér er lítil tillaga en þó stór sem við flytjum saman þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Bjarni Harðarson, fulltrúi Framsóknarflokksins, um stofnun Háskóla Vestfjarða, um að Háskóli Vestfjarða á Ísafirði fái sjálfstæða stöðu á fjárlögum, ekki eins og nú er að Háskólasetrið sé hluti af einhverjum safnlið í menntamálaráðuneyti heldur fái sjálfstæða stöðu sem háskóli, fái sjálfstætt fjárlaganúmer sem slíkur. Mig minnir að allir frambjóðendur við alþingiskosningar síðasta vor í Norðvesturkjördæmi hafi á fundi á Ísafirði lofað að þetta yrði gert og ályktanir Fjórðungsþings Vestfirðinga síðasta haust voru afdráttarlausar í þeim efnum. Menn töldu að það væri ein mesta styrking fyrir byggðarlagið að fá viðurkenndan háskóla á svæðið, Háskóla Vestfjarða, þannig að það metnaðarfulla Háskólasetur sem nú er þar fái að þróast og breytast í háskóla og fái eigið fjárlaganúmer. Á Alþingi hefur verið flutt tillaga um þetta. Ég veit ekki betur en allir bæjarstjórnarfulltrúar á Ísafirði hafi hvatt til þess að þetta yrði gert, þetta var eitt af því sem Vestfjarðanefndin svokallaða taldi að væri brýnasta verkefnið, það væri stofnun sjálfstæðs háskóla á Ísafirði. Við leggjum til að Háskóli Vestfjarða fái sjálfstætt fjárlaganúmer og taki til starfa ekki síðar en 1. júní á næsta ári, fái 75 millj. kr. á fjárlögum til að setja þann undirbúning á fullt þannig að hægt verði að lýsa yfir sjálfstæðum háskóla á Vestfjörðum 1. júní á næsta ári.

Frú forseti. Það eru ýmis önnur mál sem ég vildi koma að. Í nefndaráliti okkar er vikið að málefnum svokallaðs Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og í fjárlagatillögunum er gert ráð fyrir að til tekna séu færðir 4 milljarðar kr. á næsta ári og auk þess er rúmur milljarður, að mig minnir, færður til útgjalda vegna starfseminnar þar. Varðandi Þróunarfélagið vil ég segja: Við höfum ítrekað farið fram á að öll gögn verði lögð fram um kaup og sölu og samninga sem umrætt félag hefur gert, um sölu á eignum liggi fyrir samningar, um kaup á vörum og þjónustu hvers konar, þannig að Alþingi gæti lagt mat á það hvort rétt væri að setja þær tölur sem um er að ræða inn í fjárlög. Við höfum ekki fengið þessar upplýsingar og þrátt fyrir að því hafi verið lofað í fjölmiðlum að þessir samningar yrðu allir lagðir á borðið hefur það ekki verið gert. Maður spyr: Hvað er að fela? Um sölu á opinberum eignum er að ræða, ráðstöfun á opinberum eignum og öll gögn varðandi það eiga að liggja fyrir.

Það er rétt, sem hér kom fram, að fjárlaganefndarmenn fengu að sjá óundirritaða kaupsamninga um sölu á ákveðnum eignum undir trúnaði. Það kemur á óvart að eignir skuli seldar og tekjufæra eigi þær inn í ríkissjóð án þess að greiðslur séu komnar, að veitt skuli heimild til að veðsetja eignir ríkisins fyrir hærri upphæð en berst inn í ríkissjóð, það má veðsetja þær fyrst, og einnig að ráðstafa megi þeim eignum til annarra aðila með samþykki stjórnar Þróunarfélagsins innan þeirra fjögurra ára marka sem sett eru um óbreytta eigu.

Það er engum til góðs, og allra síst forsvarsmönnum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að leyna upplýsingum hvað þetta varðar eða reyna að drepa umræðum á dreif með því að ásaka aðra fyrir það eitt að vilja fá upplýsingarnar á borðið. Þessar upplýsingar, sem lúta að öllum viðskiptum og samningum í kringum Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, eiga að liggja fyrir, þetta eru opinberar eignir, og sú krafa stendur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni eða hvort hann telur sig geta lokið henni á einni mínútu eða svo, senn líður að þeim tíma að fram fer áður boðuð utandagskrárumræða.)

Frú forseti. Ég á eftir einn kafla í ræðunni og kýs að fá að fresta henni.