140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

millidómstig.

296. mál
[18:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra ágæta yfirferð yfir feril málsins undanfarna mánuði og ár en ég mundi engu að síður vilja fá skýrari svör um hvernig þessari vinnu innan ráðuneytisins verður háttað og hvort það standi til, jafnvel á þessu þingi, að leggja fram tillögur um millidómstig.

Það er kannski ágætt að upplýsa þá sem eru að fylgjast með um að þetta er mikið réttlætismál, sérstaklega í kynferðisbrotamálum. Dómarar í Hæstarétti hafa ekki talið sig hafa heimild nema í algjörum undantekningartilvikum, að mig minnir einu máli, til að meta aftur vitnisburð hjá héraðsdómi. Þessu er öðruvísi háttað í nágrannalöndum okkar, í Skandinavíu, en þetta hefur leitt til þess að Hæstiréttur hefur vísað málum heim til héraðs, jafnvel oftar en einu sinni, með tilheyrandi óþægindum fyrir brotaþola, sakborning og alla þá sem standa að málinu.

Um þetta snýst málið. Ég held að ágreiningur milli þeirra fjögurra einstaklinga sem skipuðu þennan starfshóp skipti ekki öllu máli. Hvort við komum á millidómstigi fyrst í sakamálum og svo einkamálum seinna er ekki aðalatriðið, heldur það að við komum millidómstigi á hið allra fyrsta. Það hefur verið talað um þetta í mörg ár aftur og aftur og nú er komin fram mikil samstaða meðal allra þeirra sem vinna í þessum málum og ég vona að (Forseti hringir.) innanríkisráðherra geti gefið skýr svör hvað það varðar.