144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er býsna snúið að því leytinu til að við erum sammála en þó hróplega ósammála, ósammála að því leyti að sem betur fer hafa forsendur og kjör í landinu batnað í auknum hagvexti og aukið svigrúm hefur leitt til þess að í þessum fjárlögum er aukið framlag til heilbrigðiskerfisins og til menntakerfisins. Verið er að setja 400 millj. kr. í húsaleigubætur, einmitt í þá málaflokka sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Ég spyr því í seinna andsvari hvort hún sé ekki fylgjandi þeirri forgangsröðun sem birtist í þeim breytingum sem um ræðir.