146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

vopnalög.

235. mál
[11:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998. Frumvarpið var áður lagt fram á 145. löggjafarþingi en var ekki afgreitt og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á vopnalögum til þess að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna til sprengiefnagerðar. Framangreind reglugerð hefur verið tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

Eftirlitsstofnun EFTA setti íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma lokafrest til 2. maí sl. til þess að innleiða framangreinda reglugerð. Það var ekki gert og með stefnu sem er dagsett 16. nóvember sl. höfðaði Eftirlitsstofnun EFTA mál gegn Íslandi á grundvelli 2. mgr. 31. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Í þeirri stefnu óskaði Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, eftir yfirlýsingu EFTA-dómstólsins um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldu sína með því að taka ekki upp í landsrétt reglugerðina sem innleiða á með frumvarpi þessu. Ísland er búið að skila sinni málsvörn til EFTA-dómstólsins og bíður málið afgreiðslu hjá dómnum.

Í frumvarpinu sem hér liggur fyrir Alþingi er lagt til bann við heimatilbúnum sprengjum. Þá er lagt til að forefni til sprengiefnagerðar verði skilgreint í vopnalögum og að ráðherra fái heimild til að kveða á um það í reglugerð hvaða forefni skuli háð takmörkunum og hvaða forefni skuli vera tilkynningarskyld. Enn fremur er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða á um í reglugerð að öll viðskipti með tiltekin forefni til sprengiefnagerðar skuli skráð og lagðar til leiðbeiningar um það hvað teljist til grunsamlegra viðskipta.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna er afrakstur fastanefndar Evrópusambandsins um forefni til sprengiefnagerðar, en á árinu 2008 auðkenndi nefndin mörg efni sem unnt er að misnota til hryðjuverkaárásar.

Með reglugerðinni er komið á samræmdum reglum um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun forefna en tilgangurinn með reglunum er að takmarka aðgengi almennings að tilteknum efnum sem talin eru upp í viðaukum við reglugerðina og reyna þannig að tryggja öryggi almennings. Reglurnar fela í sér takmarkanir á notkun efnanna, skilyrði um skráningu þeirra, tilkynningarskyldu og eftirlit vegna þeirra.

Í þessari reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins er efnunum skipt upp í tvo flokka. Annars vegar efni sem óheimilt er að selja almennum borgurum nema undir ákveðnum styrkleikamörkum og er þeirra getið í I. viðauka í reglugerðinni. Þessi efni eru sjö talsins en þar á meðal er t.d. efnið vetnisperoxíð sem er eitt af uppistöðuefnunum í tiltekinni sprengju sem talið er að hafi verið notuð í hryðjuverkaárásunum í Brussel í mars á síðasta ári. Hins vegar er um að ræða efni sem eru aðeins tilkynningarskyld ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað með þau. Þessi efni eru átta talsins og eru talin upp í II. viðauka í reglugerðinni. Þar er t.d. að finna efnið aseton, sem einnig er nauðsynlegt til að framleiða þá sprengju sem ég nefndi áðan. Þar er einnig að finna efnið ammóníumnítrat sem er eitt af uppistöðuefnunum í sprengiefni sem kallast ANFO og var t.d. notað í hryðjuverkunum í Noregi árið 2011 og Oklahoma í Bandaríkjunum árið 1995.

Efnin sem talin eru upp í viðaukum reglugerðarinnar geta tekið breytingum. Þannig getur styrkleiki efnanna sem talin eru upp breyst eða efni verið tekin út af lista eða fleiri efnum bætt við lista. Vegna þessa liggur fyrir að auk þeirra breytinga sem hér er lagt til að gerðar verði á vopnalögunum, verði reglugerðin innleidd að meginstefnu til með reglugerð sem mun þá eiga sér stoð í vopnalögum, nr. 16/1998, eins og þau lög munu væntanlega taka breytingum verði frumvarp þetta að lögum.

Þá ætla ég rétt að víkja að helstu atriðum sem snúa að efni og áherslum þessa tiltekna frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi. Í fyrsta lagi er lagt til að það skuli heimilað að kveða á um með reglugerð hvaða efni og blöndur, sem hægt er að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna, skuli teljast til forefna til sprengiefnagerðar samkvæmt lögunum. Ljóst er að fjölmörg efni má nota til sprengiefnagerðar. Mörg hver eru í almennri notkun, svo sem eldsneyti, áburður og fleira. Því var talið rétt að skilgreiningin á forefnum hverju sinni miðist við I. og II. viðauka í þeirri reglugerð sem áður er nefnd, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins. Þá getur efnum sem eiga að sæta takmörkunum fjölgað, leyfður styrkleiki þeirra breyst og fleira. Þess vegna er nauðsynlegt að sá möguleiki sé fyrir hendi að breyta þessum lista með skjótum hætti.

Í öðru lagi leiðir af reglugerðinni að banna framleiðslu heimatilbúinna sprengja. Því er lagt til að óheimilt verði að búa til, varðveita, hafa í fórum sínum, selja, flytja til landsins eða flytja úr landi heimatilbúnar sprengjur. Þó svo að ákvæðinu sé ætlað að ná til gerðar af sprengjum sem ætlunin er að nota til hryðjuverka mun ákvæðið einnig ná til annarra sprengja, svo sem rörasprengja, sem því miður eru dæmi um að hafi verið gerðar hér á landi og valdið hafa bæði líkams- og eignatjóni.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um það í vopnalögum að almennum borgurum verði óheimilt að hafa í fórum sínum og nota forefni sprengiefna í meiri styrkleika en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð kveða á um. Ráðherra gæti þó veitt undanþágu frá þessu banni vegna ákveðinna efna og það yrði þá gert með reglugerð. Þá er lagt til að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að skrá skuli öll viðskipti með forefni.

Í fjórða lagi er lagt til að lögð verði á sú skylda á þann sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með forefni að tilkynna um grunsamleg viðskipti. Í frumvarpinu eru leiðbeiningar um það hvenær viðskipti geta verið grunsamleg og ég vísa því til frumvarpsins um það.

Í fimmta lagi er lagt til að heimila ráðherra að ákveða með reglugerð hvaða viðskipti með forefni samkvæmt lögunum skuli skráð og hvernig skuli meðhöndla skrána. Rétt þykir að kveða á um í lögum hvaða upplýsingar vegna slíkra viðskipta skuli skráðar, hve lengi skráin skuli vera vistuð og önnur grunnatriði. Flest fyrirtæki hafa skráningarkerfi nú þegar um viðskipti og viðskiptamenn sína þannig að hugsanlega, ef af skráningu verður, ætti þetta ekki að valda miklum óþægindum fyrir fyrirtæki og viðskiptamenn. Hins vegar kann að vera að aðgreina þurfi þessa skrá frá öðrum viðskiptaskrám svo hægt verði að miðla upplýsingum úr skránum til lögreglu eða tollstjóra og/eða veita þessum opinberu aðilum aðgang að þessum upplýsingum.

Með tilkynningarskyldu á grunsamlegum viðskiptum sem getið er hér að framan, sem og skráningarskyldu er gerð krafa um að persónuupplýsingar verði unnar og birtar þriðja aðila ef um er að ræða grunsamleg viðskipti. Þess verður með öðrum orðum krafist að viðskipti sem eru grunsamleg verði skráð og þau tilkynnt til yfirvalda. Skráningin og birtingin felur í sér skerðingu á grundvallarréttindum til einkalífs og réttindum til verndar persónuupplýsinga. Það sama gildir ef ráðherra ákveður með reglugerð að taka upp skráningarkerfi. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þau grundvallarréttindi til verndar persónuupplýsinga séu vernduð á viðeigandi hátt þegar persónuupplýsingar einstaklinga eru unnar við beitingu laganna og reglugerða sem settar kunna að verða.

Höfð hefur verið hliðsjón af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, sem og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá því í október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga við gerð þessa frumvarps, einkum um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við skráningu viðskipta og tilkynningar um grunsamleg viðskipti. Taka þarf tillit til almennra meginreglna um gagnavernd sem varða lágmörkun gagna, takmörkun vegna tilgangs, meðalhóf og nauðsyn, sem og kröfuna um að sýna skráðum aðila tilhlýðilega virðingu að því er varðar rétt hans til aðgengis, til leiðréttingar og ekki síst til eyðingar upplýsinga.

Í sjötta lagi er lagt til að ráðherra geti með reglugerð um forefnið til sprengiefnagerðar m.a. kveðið á um þær tegundir forefna sem sæta takmörkunum, sæta eingöngu tilkynningarskyldu, skráningarskyldu, viðmiðunar- og styrkleikamörk og fleira í þeim dúr.

Líkt og fram hefur komið felur frumvarpið í sér reglur sem hafa áhrif á almannahagsmuni og almannaöryggi. Leiða má að því líkur að yfirvöld fái þau tæki í hendur til að auka öryggi samfélagsins verði frumvarp þetta að lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað helstu atriði frumvarpsins og legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.