151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra þekkir það auðvitað manna og kvenna best að ekkert mál er mikilvægara fyrir íslenskt samfélag sem stendur en að bólusetning hefjist og hefjist sem fyrst. Næstmestu skiptir síðan vissan, fyrirsjáanleikinn um hvenær bólusetningin hefst, hversu margir skammtarnir verða og hvenær nægilega stór hluti þjóðar hefur fengið bólusetningu til að við getum farið að horfa fram á veginn. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra út í þetta í síðustu umræðu okkar um þessi mál, en þá hafði verið misræmi milli yfirlýsinga forstjóra Lyfjastofnunar og sóttvarnalæknis. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði þá að hún væri að horfa til fyrsta ársfjórðungs, fyrri hluta þess tímabils, þó með fyrirvara um óvissu. Fréttir gærdagsins voru, held ég, okkur öllum mikil vonbrigði og kvíðavaldandi, að við séum að tala um langtum færri skammta en gert hafði verið ráð fyrir.

Ég lít svo á að nú sé það hæstv. heilbrigðisráðherra að leiða samtalið við þjóðina, fólkið, fyrirtækin. Efnahagslífið allt verður að fá vissu í þessum efnum og vita hvert planið er. Við sjáum t.d. hvernig markaðir brugðust á sínum tíma við fréttum af bólusetningu, mjög jákvæð viðbrögð. Við sjáum um leið viðbrögðin og vonbrigðin við fréttum gærdagsins. Hefði þessi staða legið fyrir, þ.e. að óvissan um magnið væri í reynd þetta mikil, hefði það í mínum huga vitaskuld haft grundvallaráhrif á þær efnahagsaðgerðir sem við höfum verið að ræða í haust og síðustu daga. Ef bólusetning dregst á langinn sjáum við ekki fram á viðspyrnu með vori eða sumri, heldur mögulega áframhaldandi vöxt atvinnuleysis og gjaldþrotahrinu fyrirtækja og heimila. Við gætum verið að horfa upp á hryllilega mynd. Hver dagur af sóttvarnaaðgerðunum er okkur dýrkeyptur efnahagslega og félagslega, kostnaður sem er talinn í milljörðum.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er: (Forseti hringir.) Eru til sviðsmyndir um efnahagsleg áhrif þess að bólusetningin sé að dragast meira en við gerðum ráð fyrir?