151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:41]
Horfa

Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Okkur, sem viljum klára málin fljótt og hratt hér í þinginu, finnst oft erfitt að þurfa að vaða yfir þröskulda og línur sem eru kannski ósýnilegar okkur sjálfum en eru þó mjög sýnilegar. Starfsemi þessara félaga heyrir t.d. meira og minna undir menntamálaráðuneytið, sem er annað ráðuneyti en við fjöllum um hér. Það er einn þröskuldurinn. En við höfum átt samskipti við menntamálaráðuneytið um að grípa þessi félög. Þar eru peningar til að taka á móti þeim og þau falla undir áðurnefnt ákvæði í máli nr. 300, atvinnuleysistryggingar, sem ég fjallaði um áðan, eins og íþróttafélögin.

Stærsti hluti íþróttastarfseminnar, þ.e. allt skrifstofuhald, framkvæmdastjórn og annað slíkt, fólk sem ekki er í beinni íþróttakeppni, heyrir t.d. ekki undir þessi lög. Þau eiga bara við um keppnisfólkið og þá sem eru úti á vellinum að þjálfa og æfa og keppa. Aðrir heyra bara undir hlutabótaleiðina sem fyrirtæki í landinu heyra undir. Ég ítreka að auðvitað er sameiginleg ósk okkar að þessum félögum verði gert eins hátt undir höfði og nokkur kostur er á þessum erfiðu tímum, sem setja auðvitað mark sitt á íþróttahreyfinguna eins og alla aðra. Við vonum að með því að við blásum þeim aðeins byr í seglin verði þau betur undirbúin þegar flautað verður til leiks.