133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[20:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að reyna að nálgast yfirlit yfir sjóðina. Ég reikna með að það séu til yfirlit yfir þá sjóði sem standa illa hvað varðar örorkubyrðina og hvernig þeir standa.

Hvað varðar hins vegar fyrstu spurningu hv. þingmanns, þá hefur þetta frumvarp í rauninni ekkert með þá skerðingu að gera sem koma átti að til framkvæmda 1. nóvember og var frestað. Eftir því sem mér skilst var verið að gera þær breytingar til að fara eftir þeim reglum sem um það giltu. Það hefur út af fyrir sig ekkert með þá stöðu að gera þótt eflaust geti menn velt því fyrir sér hvort staðan hafi verið rótin að því að yfir höfuð var farið að skoða þessi mál.

Hvað varðar önnur verkefni sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldinu, þá mun þessi skerðing ekki hafa nein áhrif á þau, það er vel fyrir þeim séð eins og staðan er í dag. Þessi breyting mun ekki hafa áhrif á þau.