137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal segir að ég fari mikinn í fjölmiðlum. Hv. þingmaður fór mikinn í ræðustól. Eins og henni er kunnugt um er ég frekar orðvar maður frá degi til dags og venjulega og það þarf býsna mikið til þess að mér verði misboðið. Málið er einfaldlega það í þessu samhengi að óskað var eftir því að lögfræðingar Seðlabankans kæmu á fund utanríkismálanefndar og gerðu grein fyrir áliti sínu á málinu og haft var samband við Seðlabankann og þess farið á leit að lögfræðingarnir kæmu á fund nefndarinnar og greindu frá viðhorfum sínum. Að sjálfsögðu tekur maður mark á þeim sjónarmiðum og þeim orðum og þeim skrifum sem frá lögfræðingum Seðlabankans koma.

Það sem ég gerði athugasemdir við er það að síðdegis í gær kom tölvuskeyti frá lögfræðingum Seðlabankans eða aðallögfræðingi Seðlabankans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við lögfræðingar Seðlabanka Íslands viljum undirstrika að á minnisblaði til utanríkismálanefndar er samantekt á því sem kom fram á fundinum þar sem lögfræðingar mættu sem gestir og ber ekki að líta á sem umsögn Seðlabankans sem slíka. Við viljum gjarnan að þetta komi fram hjá nefndinni. Verið er að klára vinnslu á umsögn Seðlabankans til fjárlaganefndar.“

Það var það sem ég var að gera athugasemdir við. Ég hafði staðið í þeirri trú að lögfræðingarnir væru að tala í umboði Seðlabankans og fyrir hönd hans og það er augljóst að þegar menn koma með þann hatt á fund nefndar þá gefur það umsögn þeirra tiltekna vigt. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem þau kunna að standa fyrir sem einstaklingar. (Gripið fram í.) þau eru að sjálfsögðu fullgild eins og hverra annarra sem eru kallaðir á fundi nefndarinnar og hafa skoðanir á þessu máli. (Forseti hringir.) Margir lögfræðingar hafa komið á fundi nefnda og haft mismunandi skoðanir á þessu máli. Þeirra sjónarmið er liður í því en augljóslega ekki skoðun Seðlabanka Íslands.