138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þá misskilið orð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar hér áðan varðandi hvort ég teldi þetta vera ólöglegt athæfi og biðst afsökunar á því.

Vissulega eru eignir á móti þessari yfirtöku ríkisins upp á 270 milljarða en það er óvíst hverjar þær verða á endanum. Það er ekkert víst að þær verði það miklar þegar á móti kemur.

Það vekur hins vegar athygli mína, ef ég hef heyrt rétt það sem hv. þingmaður sagði, að þetta muni koma fram í rannsóknarskýrslu Alþingis í febrúar. Hann fullyrðir að í skýrslunni muni koma fram niðurstaða eða eitthvað um stjórn Seðlabankans og fall hans að hans viti. Hv. þingmaður vitnaði í að hann hefði í það minnsta fært rannsóknarnefndinni einhver tíðindi eða upplýsingar hvað það varðar. Þetta finnst mér athyglisvert. Það er þá búið að koma fram í (Forseti hringir.) tvígang á stuttum tíma, annars vegar frá ríkisendurskoðanda um að hann geri ráð fyrir því að verið sé að rannsaka málið og sömuleiðis (Forseti hringir.) hjá hv. þingmanni. Við bíðum þá bara eftir því.