Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[02:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég setti mig hér aftur á mælendaskrá þegar tilkynnt var að forseti ætlaði bara að klára mælendaskrá. Nú, ókei, svoleiðis. Er þannig fundarstjórn gangi? Það er ekkert verið að taka tillit til eins eða neins eða málefnalegra sjónarmiða eða neins svoleiðis. Það á bara að trukka þessu í gegn. Samt datt mér í hug að það væri mjög viðeigandi alla vega að byrja á því að tala aðeins um vinnulagið hérna í þinginu því að það er rétt sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson sagði hérna í ræðu áðan, það skiptir ekki bara máli hverjir stjórna heldur hvernig þeir stjórna. Þá er maður að reyna að skilja aðeins hvernig er stjórnað og vinnulagið við stjórnunina. Hérna erum við með fyrirkomulag þar sem það eru flokkar á þingi sem taka sér bara meirihlutavaldið, segja: Við ætlum að ráða og við ætlum að ná einhverju fram, gera eitthvert stjórnarsáttmálasamkomulag o.s.frv. Og með meirihlutaatkvæðum sínum í þingsal, algjörlega óháð öllum málefnalegum sjónarmiðum sem geta komið fram, þá hafa þau bara dagskrárvaldið. Vinnulagið spilast dálítið eftir því, hef ég orðið var við í nefndarstörfunum, eins og ég talaði um áðan. Stundum líður mér eins og það sé verið að fylla í eyðurnar, að til málamynda sé verið að fá umsagnir og gesti sem segja eitthvað um mál. Það er ekki nema þeir segi eitthvað virkilega óneitanlega óþægilegt, þá þurfum við kannski að gera einhverjar hliðranir í málunum, annars renna þau bara í gegn eftir því sem meirihlutaatkvæðin segja: Bara jú víst, óháð öllum öðrum sjónarmiðum, sem er mjög merkilegt.

Þarna erum við að tala um 1.300 milljarða kr. fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár þar sem framkvæmdarvaldið virðist ráða algjörlega á þann hátt að það er ríkisstjórnin sem leggur fram fjárlagafrumvarp til þingsins, gott og blessað með það, en er síðan með puttana alls staðar í öllu ferlinu. Fjárlaganefnd sest inn á sína fundi, kallar eftir umsögnum, fær umsagnir, ráðuneytin koma og útskýra hitt og þetta á hinum og þessum málefnasviðum, en við erum bara að bíða, við erum bara að bíða eftir því að það komi ný þjóðhagsspá, endurreiknaðar tölur frá fjármálaráðuneytinu. Og í þessu tilviki voru alveg glæný fjárlög, bara rétt í byrjun desember, sem við fáum engar umsagnir um. En það skiptir ekki máli því að allt ferlið er í rauninni bara til málamynda til að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar í þingskapalögum: Það skal gera þetta og það skal gera þetta. Ókei, við verðum að gera það, tékkum í boxið. Búið. Ókei, höldum áfram. Við ætlum hvort eð er að gera þetta svona sama hvað tautar og raular, sama þótt t.d. NPA-þjónustan sé ekki fullfjármögnuð og þess háttar.

Mér finnst alla vega áhugavert, og ég er búinn að tala um þetta, og það á að vera undirnefnd starfandi í fjárlaganefnd sem á að reyna að fara aðeins yfir þetta, að þingið á að stjórna þessu dálítið meira, dálítið miklu meira í rauninni, af því að það er nú einu sinni á þingi sem er fjárveitingavald, löggjafarvald. Mér finnst það hvernig ráðherrar hafa stundað vinnu sína, bara í gegnum tíðina, vera mjög ranglega gert. Við erum lýðveldi með þingbundinni stjórn og frá mínum bæjardyrum séð þá þýðir það að ráðherrar eru í rauninni fulltrúar Alþingis inni í faglegri stjórnsýslu, ekki að ráðherrar eigi einhvern veginn að fara þangað í krafti meiri hluta atkvæða hér á þingi og geti bara tekið geðþóttaákvarðanir um það hvernig eigi að haga hinu og þessu. Það gengur ekki upp því að við setjum hérna lög um það hvernig stjórnsýsla, hvernig dómstólar eiga að fylgja — hvernig lögræðisreglan er, hvernig lögreglan á að haga sínum valdheimildum og ýmislegt svoleiðis til að halda uppi lögum og reglu. Við setjum hérna lög um það hvernig á að fara eftir því.

Ráðherrar eiga líka að fara eftir lögum. Eða réttara sagt, sem fulltrúar þingsins inni í faglegri stjórnsýslu eru þeir í rauninni eftirlitsaðilar þingsins, þeir eiga að fylgjast með því hvort það sé ekki örugglega verið að framfylgja ályktunum þingsins, stefnumótun þingsins, af því að ríkisstjórnin kemur hingað til okkar á þingi með þingsályktunartillögur um ýmsar stefnur í hinum og þessum málum. Þeir passa upp á að fagleg stjórnsýsla fylgi í alvörunni lögum og stefnum sem eru settar á Alþingi. Þess vegna erum við með þingbundna stjórn.

En við höfum í rauninni verið að haga þessu öfugt. Við erum með ráðherrabundna stjórn og einhvern veginn dansa limirnir eftir því höfði hérna inn í þingsal þegar allt kemur til alls. Það hefur rosalega mikil áhrif á fjárlagafrumvarpið af því að í rauninni er það framkvæmdarvaldið, þessi faglega stjórnsýsla og ráðherrann í þessu fyrirkomulagi, sem mætir með fjárlagafrumvarp til Alþingis óháð því hvernig Alþingi vill t.d. hafa framsetningu frumvarpsins. Hvaða upplýsingar vill Alþingi að framkvæmdarvaldið leggi fyrir það þegar menn fara að útskýra fjárheimildir sem þarf til að sinna lögbundnum verkefnum? Engin fyrirmæli um það, engar leiðbeiningar um það. Það er í rauninni: Gjörið þið svo vel, framkvæmdarvald, finnið það upp hjá sjálfum ykkur.

En við erum að upplifa það einmitt sérstaklega núna, eftir því sem við höfum verið að reyna að fara eftir lögum um opinber fjármál, að það er bara rosalega ógagnsætt. Það er rosalega óaðgengilegt að skilja hvað er í rauninni verið að gera við þessa 1.300 milljarða kr. Það er bara mjög, mjög óheppilegt ef þingið á að taka ábyrgð og samþykkja þessar fjárheimildir. Það er ekki ásættanlegt að þingmenn viti ekki í rauninni hvað verið er að samþykkja. Þetta varðar sem sagt framsetningu fjárlagafrumvarpsins. Einnig varðar þetta upplýsingar sem þingið fær, og þá oft svör við spurningum þegar við fáum fjárlagafrumvarpið í hendurnar og reynum að skilja af hverju vantar t.d. útskýringar á 1 milljarði á málefnasviði háskóla, ef við spyrjum og reynum að fá einhverjar útskýringar á því, það hefur ekki borist sundurliðun hvað það varðar. Þannig að framkvæmdarvaldið stjórnar því líka hvernig það svarar spurningum. Mér finnst það vanta dálítið núna, sérstaklega á t.d. opnum fundum sem hafa verið að undanförnu í fjárlaganefnd, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og víðar, að það vantar eiginlega bara reglu um sannsögli. Píratar hafa verið með frumvarp um sannsögli ráðherra, en það vantar í rauninni t.d. að það að bera ljúgvitni fyrir nefndum þingsins sé refsivert. Ég hef upplifað það sem nefndarmaður að umsagnaraðilar komi einfaldlega og ljúgi að þingnefnd, bara flatt út, segi bara: Nei, þetta virkar ekki svona, þetta virkar hinsegin. Það er bara gjörsamlega óásættanlegt. Ég vissi betur í því tilfelli og gat þráspurt um það, en þeir gáfu sig samt ekki. Í þannig tilfellum finnst mér að það eigi að hafa einhverjar afleiðingar. Vissulega getur það verið svo að fólk hefur ekki vitað betur en þetta voru aðilar sem áttu að vita betur.

Annað sem framkvæmdarvaldið stjórnar eru forsendur frumvarps, t.d. spá um launaþróun og því um líkt á næsta ári, spá t.d. um hagvöxt eða vísitölu neysluverðs. Það er Hagstofan sem sér um að pæla í því, en t.d. eitthvað eins og launaþróun á næsta ári. Það er eitthvað sem fjármálaráðuneytið grefur upp úr hattinum. Í tilviki t.d. laga um almannatryggingar hefur það verið mjög ónákvæmt eða vanmetið í gegnum árin, sem hefur leitt til þess að þau réttindi eru mun lægri en þau ættu að vera miðað við ef lífeyrir hefði fylgt launaþróun, eins og hann á að gera samkvæmt lögum. En launaþróun er svo óljóst skilgreind og við getum ekki einu sinni fengið nákvæmar upplýsingar um hvernig það er reiknað út. Þannig að aftur stjórnar framkvæmdarvaldið hvaða upplýsingar þingið fær og ráðherra sem fulltrúi þingsins inni í ráðuneytunum ætti að vera þar til að ganga á eftir því að fagleg stjórnsýsla svari skýrt og heiðarlega því sem fólk er að spyrja um.

Ég komst þangað, ég hef miklu meira að segja. Bæta mér aftur á mælendaskrá.