154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vekur máls á því að það sé eðlilegt að vænkist hagur fólks þá hljóti það ekki lengur bætur. En tökum t.d. vaxtabætur sem dæmi, það á að greiða núna samkvæmt þessum fjárlögum, ef þau fara óbreytt í gegn, 2 milljarða á næsta ári. Fyrir u.þ.b. tíu árum síðan, að nafnverði, algerlega óháð fólksfjölgun og verðbólgu, voru greiddir út 9 milljarðar í vaxtabætur. Það er eitthvað athugavert við þessar tölur. Það er búið að eyða þessu kerfi út. Það voru mun fleiri fjölskyldur í landinu sem fengu vaxtabætur hérna áður. Það er eitt að segja að það eigi að vera með skerðingarmörk, annað að hafa þau með þeim hætti að þau fylgi engan veginn verðlagi og launum og meira að segja eignaverði sem fólk getur ekki greitt sér út til að eiga fyrir greiðslubyrði. Ég held að það sé mikilvægt að hv. þingmaður skoði það í því samhengi. Varðandi önnur kerfi þá má eflaust leita að fleiri stuðningsúrræðum en ég sé ekki ástæðuna fyrir því af hverju við þurfum að finna upp hjólið þegar t.d. löndum í kringum okkur hefur gengið býsna vel með umrædd kerfi, sem við viljum einfaldlega styrkja frekar en veikja.