137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta og efnismikla ræðu. Hann kom inn á nokkur atriði og þar á meðal hjó ég eftir þeim orðum hans „að fara til Brussel með sama hvíta fánann og í Icesave“. Ég tek undir og vil þá gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hann noti þetta orðalag vegna þess að hann hafi áhyggjur af því að niðurstaða þessara viðræðna kunni að verða jafn... ja, nú er spurning hvaða orð maður á að nota, jafnklaufaleg eða jafnslæm (Gripið fram í: Niðurlægjandi.) eða niðurlægjandi og Icesave-niðurstaðan, hvort hann deili þeirri skoðun með mér.

Þá væri líka ágætt að heyra skoðun hans á því hvort Evrópusambandsumsóknin og sá mikli hraði sem virðist vera á málinu, þ.e. að sérstaklega öðrum stjórnarflokknum, Samfylkingunni, virðist liggja mjög á að komast inn í Evrópusambandið, hvort hann telji að það hangi á Icesave-samkomulaginu.

Ég vil svo taka undir orð hv. þingmanns þegar hann ræddi um þetta skjól sem svo margir hafa gefið í skyn að væri af Evrópusambandinu eða stuðningur eða að hér mundi allt breytast til betri vegar um leið og við værum búin að sækja um, að það er vitaskuld blekking ein og til þess eins að reyna að afla fylgis við þessa skoðun. Það er alveg ljóst, og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar áðan, að Evrópusambandið kostar miklu til til að bæta ímynd sína og mig grunar að þeir sem halda þessu fram hér á Íslandi og hafa haldið slíku fram undanfarnar vikur og mánuði séu einmitt að því til að bæta ímynd sína.