140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki í velferðarnefnd og ekki í öðrum þeim nefndum þingsins sem nálægt þessu máli hafa komið, hef á þessu enga sérþekkingu nema þá að vera hluti af samfélagi, faðir vissulega eða má skilgreina mig sem slíkan, stuðningsfaðir og auðvitað sonur og hluti af fjölskyldu. Í þeim skilningi eru auðvitað allir sérfræðingar á þessu sviði.

Ég hef verið spurður um afstöðu mína til þessa máls og ég hef yfirleitt svarað því með þeim kaldranalega hætti að afstaða mín sé sú að ég sé á harðahlaupum undan afstöðu í þessu máli og það er í raun og veru á þeim harðahlaupum sem ég kem í þennan ræðustól í umræðu um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.

Ég kvarta yfir því að vera knúinn til þessara hlaupa. Ég tel að mál sem koma inn á þingið eigi að vera undirbúin, þau eigi að vera þroskuð. Sé krafist afstöðu þingheims í þeim málum eigi að vera nokkuð skýrar línur sem myndast hafi í umræðu í samfélaginu í hugmyndalegum átökum og með rökum sem orðið hafa til. Mér finnst það ekki hafa verið í þessu máli. Aðrir menn hafa rakið forsögu málsins og gang þess og þekkja það betur en ég. Fyrir mér hefur þetta verið nánast eins og „kúpp“ að málið er rekið áfram af þvílíkum krafti og látum að það er eins og ekkert eigi að standa í vegi fyrir því. Það hefur auðvitað gerst og ég get ekki kallað það annað en misnotkun að formaður þingflokks næststærsta flokksins á þinginu hefur beitt sér þannig fyrir þessu máli að hún hefur gert það að flokkspólitísku máli. Í tvígang hefur það verið þannig að menn hafa verið á harðahlaupum við að komast undan því að umræða og afstaða að henni lokinni sé tekin á síðasta fundi þess þings sem um ræðir. Ég hef upplifað það tvisvar í þinginu og í bæði skiptin stóð ég upp og mótmælti því vegna þess að ég vil ekki taka afstöðu með þeim hætti. Ég hef ekki heimild, ég hef ekki umboð frá fólkinu sem greiddi þeim lista atkvæði sem ég valdist inn af til að taka afstöðu með þeim hætti.

Nú má vel segja við mig: Ja, bíddu nú við, af hverju vinnur þú ekki vinnuna þína? Af hverju hefur þú ekki verið með í þessum umræðum? Þá má líka spyrja: Hvaða umræðum? Þetta eru þingsályktunartillögur sem komið hafa hingað inn. Þetta er fyrsta síðari umræða þingsályktunartillögu sem hér fer fram. Ég var að tala við indælt fólk, gott og rökfast, nokkra rökfastari en aðra en hinir vega það upp með indæli sínu, úr félaginu Staðgöngu. Þau sögðu: Það liggja fyrir 40 rannsóknir. Karen Busby hefur fundið 40 rannsóknir sem sýna okkur fram á það sem ekki hefur verið svarað. Þá spyr ég aftur: Bíddu nú við, hver hefur farið í gegnum þessar 40 rannsóknir hér? Er einhver þingmaður í salnum sem hefur farið í gegnum þessar 40 rannsóknir? Það er rétt upp ein hönd. Það getur vel verið að það sé svo. (Gripið fram í: Tvær.) Ég hef ekki farið í gegnum þessar 40 rannsóknir. Ég sé enga niðurstöðu úr þeirri gegnumferð í greinargerð við þingsályktunartillöguna eða í því sem ég hef heyrt af ræðum þessara þingmanna.

Málið er ósköp einfaldlega ekki nógu þroskað. Umræðan hefur ekki farið fram í samfélaginu. Þær línur sem þingmenn stilla sér upp gagnvart eru ómótaðar. Það eru engir þeir stórfelldu hagsmunir í þessu máli sem knýja á um að það sé afgreitt núna. Hins vegar verðum við öll að taka tillit til þeirra sem standa í þeim vanda sem þetta mál sprettur af. Það geri ég refjalaust og hjarta mitt slær með því fólki sem ekki getur eignast börn á náttúrlegan hátt. Ég þekki þann vanda ágætlega og ætla ekki að lenda í neinum tilfinningalegum átökum um það við aðra.

Ég vil líka gera aðra athugasemd sem fjallar um vinnubrögð í málinu. Hún er hreinlega sú að við skulum vera að ræða tillögu til þingsályktunar vegna þess að í raun og veru er hér á ferðinni frumvarp í dulargervi. Bornar eru fram 14 spurningar, heyrist mér menn hafa sagt í ræðustólnum, sem allar krefjast svara. En þau eru ekki veitt í þessari tillögu til þingsályktunar, það á að gera síðar. Álitamálin á ekki að ræða og ekki að leggja fyrir, ekki að vega saman rök og staðreyndir, álit, tilfinningar, samfélagsþróun og stöðuna í öðrum löndum, heldur á að gera það síðar vegna þess að þingsályktunartillagan sjálf kveður á um að búa eigi til frumvarp með tilteknum hætti sem leyfir það sem við erum að ræða og leyfir það bara ekki heldur leyfir það með tilteknum hætti þannig að tillögumenn eru búnir að svara sjálfum sér öllum 14 spurningunum. Ég ætla ekki að lesa þær upp eða reyna að svara þeim sjálfur en ég vek athygli á hinni 14. Hún er kannski sú sem ég kvarta mest yfir að ekki hafi verið svarað. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Hvernig verður best stuðlað að opinni og upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í samfélaginu?“

Ég þarf ekki að reifa það lengi. Hér hefur auðvitað verið umræða um málið frá árinu 2008, ef ég tók rétt eftir, þ.e. í um þrjú ár. Hún hefur aðallega farið fram hér á þinginu. Nefna má málþing og einhverja fundi en fyrst og fremst hefur hún farið fram á þinginu í nokkrum blaðagreinum og í umsögnum sem við höfum fyrir framan okkur.

Á þinginu koma upp mál sem fengið hafa mismikla umræðu. Það eru þá yfirleitt brýn pólitísk mál, viðbrögð við stöðu sem upp er komin, en þau njóta þess að flokkarnir á þinginu og þingmenn þessara flokka sem kjörnir eru á þingið hafa lagt fram hin almennu stefnumið sín fyrir kjósendur. Ætla verður að þeir séu kosnir vegna þess að í ljósi og krafti þessara almennu stefnumála og afstöðu til tiltekinna sérstakra mála hafi kjósendur treyst þeim til að taka fyrir sig í fulltrúalýðræðinu afstöðu til þeirra brýnu mála sem upp koma án þess að tækifæri sé til mikillar umræðu í samfélaginu. Þetta mál er ekki þannig mál. Þeir sem réttu upp hendurnar áðan skulda mér þá skýringu á því hvers vegna þeir báru ekki upp þessi mál við síðustu kosningar árið 2009 eða kosningarnar þar áður árið 2007. Það getur vel verið að eitthvað af þeirri kosningabaráttu hafi farið fram hjá mér, ég var þá kannski á öðrum vígstöðvum en þessum, en ég man ekki til þess að flokkarnir eða einstakir þingmenn hafi tekið afstöðu og hvatt kjósendur til að styðja sig í ljósi þeirrar afstöðu um þetta mál.

Ég ætla ekki að fara efnislega í þetta af ástæðum sem ég hef þegar tilgreint. Þetta er ekki mál sem ég hef lagst mikið ofan í en ég verð þó að nefna tvennt, ég veit að það hefur komið áður fram í umræðunni og bið menn að afsaka það, bæði þá sem hlýða á í salnum og þá sem kunna að hlýða á utan salar eða kynna sér þessa umræðu síðar.

Annað er sá erfiði partur málsins sem snýr að kostnaði og hugsanlegu viðskiptasambandi milli þeirra sem barnið eiga að fá og þeirrar móður eða fjölskyldu sem barnið ber. Eins og Ameríkani nokkur sagði þar sem ég var í sal um daginn, er hið fullkomna óvinur hins góða. Í mörgum álitaefnum verðum við að ná fram því skásta, því sem einungis er gott þótt það sé ekki fullkomið, en á hitt er að líta að hér eru spurningar sem menn koma að aftur og aftur. Þær aðstæður verða við meðgöngu konu að hún þarf á aðstoð að halda, hún missir úr vinnu, þannig að við tökum ósköp jarðlægan þátt í því efni.

Eigum við að útiloka það að þeir sem barnið eignast að lokum taki þátt í þessum kostnaði? Ég geri ráð fyrir að enginn geti útilokað það. Hver er munurinn á einstökum stigum í þeim kostnaði? Hvenær fer sú kostnaðargreiðsla að nálgast viðskipti? Hver er rauða línan í þeim efnum? Ég veit það ekki en ég er ákaflega hræddur við þetta. Ég er mjög krítískur á að þetta geti orðið til þess að kvenlíkaminn sé enn og einu sinni til sölu. Eftir þá baráttu sem fram hefur farið um það mál og ég veit líka ágætlega af á ævi minni tel ég að við eigum að fara okkur afar hægt þegar ný tilvik koma upp sem til þess geta leitt.

Ég spyr mig líka, eins og gert var í síðustu ræðu og andsvörum við hana, um þann þrýsting sem ættingjar og vinir geta lent í vegna þessa máls. Fjölskyldur eru ósköp einfaldlega ekki allar eins og samskipti innan þeirra eru ekki alltaf með heilbrigðasta hætti hugsanlegum. Stundum er það þannig að þær fjölskyldur sem heilbrigðastar eru á yfirborðinu eiga við mesta erfiðleika að stríða undir niðri. Ég kvíði því að systur og vinkonur og jafnvel mæður og dætur kunni að upplifa það sem einhvers konar skyldu að veita aðstoð sína í þessum tilvikum, að lána líkama sinn, og að þær verði fyrir þeim þrýstingi ekki einungis frá hinni óhamingjusömu móður eða föður heldur skynji þær hann líka sem samfélagslegan þrýsting og kunni að líta svo á að þær hafi með einhverjum hætti brugðist ekki bara sínum nánustu heldur líka sinni samfélagslegu skyldu með því að veita ekki þessa aðstoð, hjálp, þjónustu.

Það getur vel verið að ég sé svona hugsi yfir þessu af því að ég hugsa þetta nú í fyrsta sinn og að þetta séu mál sem aðrir eru komnir fram úr, en ég er það ekki. Ég held að meiri hluti þjóðarinnar sé í þessu máli í mínum skrefum en ekki þeirra sem lesið hafa hinar 40 skýrslur eða taka léttilega á þessum tveimur álitaefnum af fjölmörgum sem ég nefndi.

Ég sagðist vera á harðahlaupum. Það þýðir að ég hef ekki tekið afstöðu gegn því að staðgöngumæðrun verði leyfð á Íslandi og ég kannast við að fjölmörg rök og fjölmargar aðstæður hneigjast í þá átt. Það sem hefur mest áhrif á afstöðu mína fyrir utan þær nánast tilvistarlegur aðstæður sem ég er lentur í er það sem venjulegur þingmannsræfill lítur á þegar hann þekkir málin ekki vel og horfir á þá sem gefið hafa umsagnir. Ég verð að segja að þegar ég lít á umsagnirnar í þessu máli, bæði því sem nú er á borðinu fyrir framan okkur og undanfara þess, tek ég eftir því að í fyrsta lagi koma fram í miklum meiri hluta þeirra efasemdir og bein andstaða. Það er auðvitað ekki þannig að við séum að telja umsagnirnar og að einhver kosning sé í umsögnum, en það vill svo til að meðal hinna gagnrýnu í umsögnunum eru þær stofnanir og sérfræðingar sem ég hef mest álit á, sem við sækjum mest til á sviði siðfræði og mannréttinda og er það fólk sem næst þessu kemur í menntun og reynslu, nefnilega fagfólkið, að undanteknum þeim sem fást við þetta sem sérfag og hafa af þessu máli ákveðna viðskiptalega hagsmuni. Í því felst þó ekki nein ásökun.

Í þriðja lagi tek ég eftir því að allir þeir umsagnaraðilar sem tengjast kvennahreyfingunni með einhverjum hætti hafa efasemdir eða lýsa beinni andstöðu við að þessi tillaga sé samþykkt. Af þessu öllu saman verða menn að fyrirgefa mér að ég tek mest mark á síðastnefnda hópnum, á kvennahreyfingunni. Mér er óljúft að beita atkvæði mínu í nokkru máli gegn samanlagðri kvennahreyfingunni á Íslandi og það verða menn að gera svo vel að virða mér til vorkunnar. Allt mitt pólitíska líf hef ég reynt að vera samferða kvennahreyfingunni og ég tel að hún sé það samfélagsafl sem breytt hefur mestu til réttrar áttar í samfélagi okkar á síðustu 40–50 árum. Ég tel að sú bylting sem við vildum mörg hver gera þegar ég var ungur og tók á sig margvíslegar myndir, sem ég ætla ekki að rekja hér, hafi að einhverju tekist hjá kvennahreyfingunni og ég tel í raun og veru að það standi upp á þá þingmenn sem hér berjast harðast fyrir þessu máli að vinna það inn í kvennahreyfingunni, vinna það meðal fagfólksins, vinna það í rökræðum um siðferðileg og mannréttindaleg efni þar sem það ber hæst. Fyrr en það hefur gerst get ég ekki stutt mál sem þannig er útbúið að ekki á að svara spurningunum 14 nema í samhengi við ákveðna endanlega lausn á málinu sem kemur fram í fyrstu setningunni í þessari tillögu til þingsályktunar.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég held að ég hafi sagt allt sem upp á mig stendur að segja til að skýra afstöðu mína í atkvæðagreiðslu sem fram fer um málið á morgun. Bara þetta að lokum: Hér er ekki mál á ferðinni sem menn skauta létt yfir. Það eru tilfinningar, það eru hefðir, það eru rök í þessu sem við verðum að taka mark á öllum saman, en það þýðir líka að við verðum að fara varlega, að það er skylda okkar á þinginu sem erum fulltrúar umbjóðenda okkar sem ekki hafa tekið afstöðu til þessa máls, sem ekki hefur gefist kostur á að ræða þetta mál til neinnar hlítar, að stíga varlega til jarðar og fara þessa vegferð, hvar sem hún endar, í mjög smáum skrefum.

Þá er rétt að bæta því við, þótt oft hafi verið sagt, að þeim mun heldur er það skylda okkar að við höfum engan eða mjög lítinn stuðning af þeim þjóðum sem við höfum tekið mest mark á í löggjöf, ekki síst löggjöf sem varðar fjölskyldu og kvenréttindi, nefnilega ríkjunum og svæðunum á Norðurlöndum.