140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki svarað öllum þessum spurningum á þeim tíma sem mér er skammtaður til svarsins. Almennt vil ég þó segja þetta: Það sem ég var að gera var að vekja athygli á sérstöðu þessa máls. Ég var ekki að segja að það væri flokkspólitískt. Ég hef að vísu tekið eftir því að einn þingflokkur hefur nánast tekið þetta mál inn á sig, ég held að það styðji það allir þar nema einn maður, en það er ekki þar með flokkspólitískt og það var ekki það sem ég var að óska eftir.

Þegar við tökum afstöðu til máls, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, um tæknifrjóvgun samkynhneigðra getum við hins vegar byggt á ákveðinni afstöðu sem við höfum lýst hér hvert um sig og sem flokkar í réttindamálum tiltekins hóps, nefnilega samkynhneigðra. Minn flokkur hefur frá upphafi stutt þá réttindabaráttu og hann er þess vegna að standa við fyrirheit sín gagnvart kjósendum með því að styðja almennt tæknifrjóvgun samkynhneigðra, að samkynhneigðir njóti þeirra réttinda sem aðrir njóta og eðlilegt er að þeir geri líka.

Einstakar lagagreinar þar verða, eins og ég segi, auðvitað álitamál. Um Norðurlöndin þá er það alveg rétt að engin ástæða er til þess fyrir okkur að apa allt eftir þeim þó að íslensk löggjöf, gjörvöll raunar, hafi lagað sig mjög að hinni dönsku af sögulegum ástæðum; en einnig að norskri löggjöf og reyndar sænsk-finnskri þegar ástæða hefur verið til. En í öðrum málum höfum við yfirleitt getað haft veður af því hvar þessi ríki eru. Hér erum við það langt frá þeim að það er þoka á milli okkar og þeirra, og ég tel að almennt sé það varhugavert ástand.