141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kannast við Laffer-kúrfuna en telur að skattlagningin sé ekki nægilega há á Íslandi til að hún sé farin að virka. Nú hefur komið í ljós að tekjurnar af vissum gjöldum, eins og áfengisgjaldi o.fl., hafa raunverulega minnkað.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann frekar. Hann sagði að það þyrfti að fresta vaxtakostnaði. Breytir það yfirleitt nokkrum sköpuðum hlut? Er það ekki ný lántaka? Er það ekki bara að breyta vöxtunum yfir í nýtt lán sem breytir engu?

Síðan vil ég spyrja um fjárlögin: Það vantar inn í þau stóra liði eins og hv. þingmaður veit, A-deild LSR, 47 milljarða skuldbinding sem ekki fer, Íbúðalánasjóð o.s.frv. Er hann sammála mér um það að fjárlögin séu eins konar pótemkintjöld sem sýna fallega nýmálaða hlið en á bak við sé eitthvað mjög rotið?