141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lengdin á náminu skiptir líka máli og framhaldsskólanám upp að framhaldsskólaprófi er langt miðað við samanburðarlöndin. Við sjáum líka að fólk tekur lengri tíma til að klára háskólanám en í nágrannalöndunum. Við höfum líka á undanförnum árum og áratugum verið að lengja nám í grunnskóla um allt að tvö ár. Við höfum lagt mikla peninga í menntakerfið okkar og má spyrja sig hvort við séum að sama skapi að fá til baka þá fjárfestingu sem við erum að leggja í kerfið.

Hv. þingmaður nefndi einnig áhrifin og áfallið fyrir einstakling að taka þá ákvörðun að hætta og svo hversu stór ákvörðun það getur verið að koma seinna aftur inn í skólakerfið og hefja nám á nýjan leik.

Þetta er eitthvað sem við erum öll sammála um að við þurfum að taka á. Eitt af því sem ég hef velt fyrir mér er hvort það þurfi að breyta skilunum á milli ólíkra skólastiga þannig að sveitarfélögin (Forseti hringir.) taki við námi upp að 18 ára aldri, verði með skólaskyldu þangað til og eftir það taki síðan ríkið við með verk- og starfsnám og háskólanám. Þetta eru stórar hugmyndir.