148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar sem auðvitað var eins og vænta mátti mjög efnismikið og þýðingarmikið inn í þessa umræðu.

Það er annað atriði sem ég hef áhuga á að taka upp við hv. þingmann vegna þess að hv. þingmaður nefndi þjóðarsjóð í ræðu sinni. Það er þannig í fjármálastefnunni að þar er á a.m.k. tveimur stöðum getið um þjóðarsjóð. Ég gerði þetta atriði að umræðuefni í ræðu minni við þessa umræðu undir nokkuð gagnrýnum formerkjum verð ég að leyfa mér að segja, vegna þess að mér þykja þessar umræður um þjóðarsjóð heldur ómótaðar og ómarkvissar og ég átta mig til að mynda ekki á því í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið hvar mörkin liggja milli ríkissjóðs og þjóðarsjóðs.

Ríkissjóði er stýrt af fjármálaráðherra sem starfar í umboði Alþingis og um málefni ríkissjóðs gilda mjög víðfeðmar reglur. (Forseti hringir.) Um þennan þjóðarsjóð vitum við næsta lítið. Ég vildi kannski leyfa mér að spyrja hvort hv. þingmaður kynni ef til vill að deila að einhverju leyti áhyggjum mínum af því (Forseti hringir.) að svo óljósar hugmyndir séu reifaðar í svo mikilvægu plaggi sem hér um ræðir sem er þingsályktunartillaga (Forseti hringir.) um fjármálastefnu.