150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Mig langar aðeins að tala um Möltu sem er land sem er um margt líkt Íslandi. Árið 2017 lést blaðakona að nafni Daphne Galizia þegar bílsprengja sprakk í bíl hennar. Daphne fjallaði um fólk í áhrifastöðum á Möltu og rétt áður en hún dó var hún byrjuð að fjalla um forsætisráðherra Möltu og tengsl hans við aflandsfélög sem voru notuð til að selja maltnesk vegabréf til fjársterkra aðila. Auk þess hafði Daphne fjallað ítarlega um þær upplýsingar sem birtust í hinum svokölluðu Panama-skjölum sem ættu að vera okkur vel kunn og svipti hulunni af spillingu sem náði allt að hæstu þrepum hjá maltneskum stjórnvöldum. Í júlí voru þrír menn ákærðir vegna morðsins á Daphne. Síðustu vikur hafa verið mótmæli við maltneska þinghúsið þar sem þess hefur verið krafist að forsætisráðherra og aðrir ráðamenn segi af sér vegna tengsla við þá ákærðu í málinu. Forsætisráðherra Möltu hefur gefið út að hann muni segja af sér í janúar. Fjölskylda Daphne hefur gefið út að það sé mikilvægt til þess að unnt sé að rannsaka málið án afskipta ráðherra.

Við verðum að halda vel utan um fjölmiðlana okkar og tryggja sjálfstæði þeirra. Blaðafólk eins og Daphne Galizia er mikilvægur hluti af lýðræðislegu samfélagi. Fyrir ekki svo löngu var hulunni svipt af spillingarmálum hér á Íslandi sem virðast ná upp í hæstu þrep hjá íslenskum stjórnvöldum. Í kjölfarið var farið í það að rægja umfjöllunina og þá einstaklinga sem stóðu að henni. Það má ekki líðast hér á landi eða annars staðar. Við þurfum að styðja fjölmiðla og það fólk sem stendur á bak við þá og tryggja öryggi þeirra.