150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er dálítið kómískt mál því að í grunninn er verið að vísa til samkomulags sem gert var milli þjóðkirkjunnar og ríkisins árið 1906, ef ég man rétt. Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn er ákaflega íhaldssamur flokkur en mér finnst nokkuð merkilegt að ekki megi hrófla við neinu í grundvallaratriðum samkomulags sem er að nálgast 120 ára aldur. Æðimargt hefur breyst í samfélaginu og líka í stöðu kirkjunnar og annarra trúfélaga hér á sama tíma. Ég ítreka, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að sjálfur er ég skráður í þjóðkirkjuna og vil henni allt hið besta en mér finnst líka mikilvægt að við gætum að hagsmunum skattgreiðenda, ríkissjóðs og einmitt bara nauðsynlegri forgangsröðun fjármuna á hverjum tíma. Ég verð að segja eins og er að þess vegna þykir mér dálítið hneyksli að Sjálfstæðisflokkurinn, sem heldur á dómsmálaráðuneytinu núna og hélt á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þegar samkomulagið frá 1997 var gert, sé algjörlega að sólunda því tækifæri sem gafst til þess að fara ofan í kjölinn á grundvallaratriðum þessa samkomulags, skoða hvort það ætti að byggjast upp með sama hætti áfram eða hvort væri kannski ástæða til að breyta því í uppbyggingu að einhverju leyti.

Það sem mér þykir allra verst er að sjá að enn og aftur sé svona mikil skuldbinding gerð að þinginu forspurðu. Hér er verið að tala um útgjöld á næstu 15 árum sem slaga sennilega á núvirði upp í 60 milljarða kr. Þetta telur framkvæmdarvaldið sig geta gert án þess svo mikið sem að spyrja þingið (Forseti hringir.) eða biðja þingið um staðfestingu á samkomulaginu. Kirkjuþing fékk þetta samkomulag til samþykktar en ekki Alþingi.