Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Alveg rosalega áhugaverð umræðan nákvæmlega núna. Það eru fleiri málefni þar sem við erum horn í horn, stál í stál, stjórnarskráin t.d. og heilbrigðiskerfið, einhvers konar þróun í því og því um líkt. Hv. þingmaður var að tala útgjöld útgjaldanna vegna, að ríkisstjórnin væri dálítið í því: Sjáið þið, hérna eru útgjöld, klappið okkur nú á bakið. En það sem við sjáum þegar við rýnum nánar í fjárlögin er að þetta er bara eitthvað sem lítur út fyrir að vera aukin útgjöld en er það síðan ekki. Fjárlagafrumvarpið kom hingað inn á þing gríðarlega vanfjármagnað, með gríðarlegum niðurskurði. Og það sem er verið að koma með í breytingartillögum er ekki viðbót þegar maður sundurliðar tölurnar. 12,2 milljarðar í heilbrigðismál hljómar rosalega mikið en þegar maður fer að raða þeim niður á staði, í lyf sem bara kostuðu meira, við erum að kaupa lyf, við segjum ekki segja við sjúklingana: Nei, fyrirgefðu, peningarnir eru búnir, þú færð ekki lyfin þín, afsakið. Sama varðandi samninga hjá Sjúkratryggingum Íslands, það þarf að fylla upp í vanfjármögnun þar. Þegar maður tínir þetta út þá er eftir upphæð sem væri kannski hægt að kalla eflingu en ef maður ber það saman við ríkisreikning er það sama upphæð og var í mínus í heilbrigðiskerfinu öllu þegar allt kom til alls. Þannig að við erum að sjá bara sömu niðurstöðu og það er engin hugmynd um það hvernig eigi að gera hlutina betur eða öðruvísi. Við sjáum það svo augljóslega sem erum hérna innan húss varðandi hugmyndafræðina að fólk er ekki sammála um grundvallaratriðin, t.d. hvað varðar einkaframtak og opinberan rekstur og ríkisstjórnin getur ekki einu sinni sinnt hvoru tveggja, (Forseti hringir.) getur ekki komið sér saman um það hvora leiðina á að fara og getur ekki einu sinni varið það (Forseti hringir.) að hafa þetta kerfi. Þetta er rosalega erfitt.