Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að vera mjög meðvituð um það hvernig verðbólga þróast og hvernig vaxtastig á Íslandi þróast veltur að mjög miklu leyti á þeim ákvörðunum sem eru teknar hér í þessum sal. Hv. þingmaður sagði áðan í ræðu sinni að þetta væru ábyrg fjárlög. Skoðum aðeins hvað hefur gerst. Hér í haust voru lögð fram fjárlög á tímum mikillar þenslu þegar atvinnustig var hátt og bullandi hagvöxtur, fjárlög sem gera ráð fyrir 89 milljarða kr. hallarekstri á næsta ári. Hvað gerist svo? Jú, það koma fram enn dekkri verðbólguspár, Seðlabankinn hækkar vexti enn meira. Og hvernig bregst meiri hlutinn í fjárlaganefnd við? Jú, hann leggur fram breytingartillögur sem fela í sér enn frekara misræmi milli tekna og gjalda, enn meiri hallarekstur. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að þetta sé ábyrgt, að þetta feli í sér ábyrga hagstjórn, virðulegi forseti?