144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

kjaradeila lækna.

[13:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir allt það sem sagt er hér um stöðugleikann og mikilvægi þess að fólk hafi þá almennu tilfinningu að það sé stöðugleiki í heilbrigðisþjónustu, í veitingu hennar og aðgengi að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Það er engin spurning, en það er samt tvískinnungur í málflutningi stjórnarandstöðunnar, að vera annars vegar hlynnt sérstöku rúmlega 6% tekjuskattsþrepi og á hina röndina tala fyrir launahækkunum til þeirra sem eru með meira en tvöföld meðallaun í landinu, (Gripið fram í.) að tala um að beita eigi skattkerfinu til tekjujöfnunar en að það verði að hækka laun þeirra sem eru best stæðir í landinu um jafnvel tugi prósenta. Þetta er málflutningur sem stenst enga skoðun. (Gripið fram í.) Og ég heyri ekki annað en að menn séu að átta sig á því hérna smám saman, (Gripið fram í.) þeir talsmenn — ef ég fengi frið(Forseti hringir.) — talsmenn þess að gengið verði til samninga um tuga prósenta hækkanir fyrir þá sem eru með laun upp undir 1.350 þús. kr. og meira, vegna þess að vissulega eru margir þeirra sem eru hér í kjaradeilu með mun hærri laun. (Forseti hringir.) Það er verið að tala fyrir tuga prósenta hækkunum til þeirra en á sama tíma að þeir eigi að greiða sérstakan viðbótartekjuskatt. Þetta er slíkur tvískinnungur að hann heldur ekki vatni. (KJak: Er heilbrigðisráðherra …)